Gripla - 20.12.2010, Page 291
291
Ef þetta er rétt til getið verður túlkun á atburðarás Rauðúlfs þáttar eft-
irfarandi: Hinn helgi Ólafur, sem upphafinn var til guðlegrar tignar þá um
nóttina í húsi Rauðúlfs, sem líta má á sem forboða Kirkjunnar, fullkomn-
aði myndina með því að horfa á sjálfan sig berast í gegnum guðsmóðurina.
En guðsmóðirin var jafnframt táknmynd fyrir Kirkjuna.8 Allegórían virðist
þannig gagnunnin.
Hvar stöndum við nú, þegar hér er komið sögu? Er sólarsteinn Rauðúlfs
þáttar og Hrafns sögu tómur uppspuni? Rauðúlfs þáttur, eina heimildin um
notkun steinsins, er þéttriðin allegóría um helgi manns sem var höfuð-
dýrlingur Norðurlanda. Það er hann sem beitir steininum við býsna tákn-
rænar aðstæður. Önnur heimild um sólarsteininn, Hrafns saga Sveinbjarnar-
sonar, er einnig gagnskotin allegórísku efni. Þar er það biskupinn góði,
Guðmundur, sem færir hinum guðrækna og næstum helga Hrafni steininn
að gjöf.
Að lokinni þessari athugun á heimildum stendur tvennt eftir, sem ekki
verður gengið fram hjá. Annað er að sólarsteinar eru nefndir í máldögum
nokkurra kirkna og eins klausturs á 14. og 15. öld.9 Eitthvað með þessu
nafni hefur því verið til á Íslandi á miðöldum. Engar skýringar á eðli þeirra
er að finna í máldögunum. Það að þeir skyldu vera í eigu kirkna gæti bent
til þess að þeir væru hafðir til helgihalds, hugsanlega sem tákn heilagrar
guðsmóður, e. t. v. eins konar kennslutæki. Þó er rétt að athuga að máldag-
ar kirkna og klaustra eru svo að segja einu eignaskrár sem til eru frá þess-
um tíma, og sólarsteinar gætu jafnframt hafa verið í eigu leikmanna (sbr.
Hrafn Sveinbjarnarson) án þess að heimildir greini.
Hitt atriðið sem eftir stendur er að Rauðúlfs þáttur lýsir steini sem hægt er
að bregða upp mót himni og finna stöðu sólar, þótt hún sjáist ekki, með því
að athuga hvar geislar úr honum. Þegar allegórískri hulu hefur verið svipt
8 Hugmynd sem rakin er m. a. til Ambrósíusar kirkjuföður (Adriaen og Ballerini, ritstj. 1957:
102–106).
9 Þær eru: Saurbæjarkirkja í Eyjafirði 1318 (sem er fyrsti máldaginn) og 1394.
Haukadalur 1331. Elsti máldagi er frá 1269 og þar er ekki minnst á sólarstein.
Hof í Litlahéraði (nú Öræfum) 1343. Þetta er elsti varðveitti máldagi Hofs.
Reykholt 1392 og 1394.
Hrafnagil 1394. Elsti máldagi er frá 1318, og er ekki minnst á sólarstein þar.
Reynistaðarklaustur 1408.
SÓLARSTEINNINN. TÆKI EÐA TÁKN?