Gripla - 20.12.2010, Page 304
GRIPLA304
1.4 Fornyrðislag á lærdómsöld
Fornyrðislag leið ekki undir lok með siðaskiptunum og nú koma til sög-
unnar nafngreind skáld sem yrkja undir þeim hætti. Enn er hátturinn not-
aður til að yrkja fyrir börn. Af slíku efni eftir nafngreinda menn eru mér
kunnug Barnadilla (pr. Einar Sigurðsson 2007, 154–160)4 eftir Einar í
Eydölum (1539–1626), Barngælur (ljóspr. Jón Helgason 1955, 43r–44v)
eftir Ólaf á Söndum (1560–1627), Barnagælur og Nýársgjöf (pr. Stefán
Ólafsson 1886, 178–200) eftir Stefán Ólafsson (1619–1688), ýmis kvæði
(sumt pr. Bjarni Gissurarson 1960) eftir Bjarna Gissurarson (1621–1712),
Grýluþula (pr. Þulur 122–114) eftir Brynjólf Halldórsson (1676–1737) og
Barnaljóð eftir Vigfús Jónsson (1711–1761). Síðastnefnda verkið var prent-
að 1780 og má telja fyrstu íslensku barnabókina (Silja Aðalsteinsdóttir 1981,
38–40). Í Kvæðabók úr Vigur (skrifuð að mestu 1676–1677) eru Barngælur
(ljóspr. Jón Helgason 1955, 232r–233v) eftir ókunnan höfund.
Skaufhalabálkur hefur orðið skáldunum innblástur til að yrkja um dýr.
Í kvæðabók Gissurar Sveinssonar (skrifuð 1665) er að finna yngri
Skaufhalabálk (ljóspr. Jón Helgason 1960, 147v–149v). Einnig er til
Asnabálkur (ópr., sjá Páll Eggert Ólason 1935–1937, 397) eftir séra Jón
Magnússon í Laufási (1601–1675) og Músabálkur (ópr.) eftir séra Jón
Guttormsson (óvíst um ártöl, kvæðið er varðveitt í Stock. papp. 25, 4:o,
skr. um 1670).
Ævikviður eru önnur bókmenntagrein sem skáldin taka í arf frá fyrri
tíð. Þegar Einar í Eydölum orti á gamals aldri Ævisöguflokk (pr. Einar
Sigurðsson 2007, 115–140) sinn valdi hann til þess fornyrðislag eins og
hetjur fornaldarsagna. Sama má segja um Jón lærða (1574–1658) og kvæði
hans Fjölmóð (pr. Jón Guðmundsson 1916). Einhver tengsl við þessa bók-
menntagrein hefur ef til vill Hugdæla (ópr.) sem Hallur Magnússon (um
1530–1601) orti 1582. Þar kvartar skáldið í löngu máli yfir ýmiss konar
óréttlæti sem það telur andstæðinga sína hafa beitt sig. Hallur útskýrir
sjálfur hvers vegna hann velur bragarháttinn og gæti sú skýring bent til að
hann hafi þekkt einhver tregrófskvæði.
4 Í þessum kafla er getið einnar útgáfu prentaðra kvæða, yfirleitt þeirrar nýjustu. Um óprent-
uð kvæði er vísað til handrita og handritaskráa.