Gripla - 20.12.2010, Page 314
GRIPLA314
nokkuð vel með rímnaflokka. Á 15. öld koma mörg tökuorð inn í íslensku,
einkum úr miðlágþýsku, og sum tökuorð sem koma eitthvað fyrir í eldri
heimildum verða þá fyrst algeng. Þannig er nokkurn veginn hægt að þekkja
í sundur rímur frá 14. öld og 15. öld á því að í þeim yngri koma oft fyrir orð
eins og par, plaga, makt, þenkja, frygð, ferskur og klénn. Sum tískuorð á
þessum tíma hverfa síðan aftur.
Yngsta tökuorð sem kemur fyrir í Gullkársljóðum er skarlat en það orð
hefur sennilega komist inn í íslensku á 13. öld og finnst m. a. í Morkinskinnu
(ONP). Gullkársljóð eru nógu langt kvæði (71 erindi) til að einhverra ungra
tökuorða væri að vænta ef kvæðið væri ungt. Til samanburðar er það sem
varðveitt er af Ólafs rímum af Rauðúlfs þætti aðeins 47 erindi (Finnur
Jónsson 1905–1922 I, 215-221) en þar koma bæði fyrir orðin strax og sodd-
an og sýnir það (sem einnig er ljóst af öðru) að rímurnar geta ekki verið
eldri en frá því um 1500. Herburtsrímur eru 165 erindi (Wisén 1881, 63-88)
og þar koma m. a. fyrir orðin plaga, makt, art og klénn sem sýna að rím-
urnar tilheyra ekki þeim allra elstu. Að engin slík orð finnist í Gull kárs-
ljóðum eru því rök, þótt þau séu ekki óyggjandi, fyrir að kvæðið sé býsna
gamalt.10
Hrafnagaldur er miklu styttra kvæði og því minna gagns að vænta af
þessari aðferð. Yngsta tökuorðið sem þar kemur fyrir er máltíð. Orðið
kemur fyrst fyrir í íslenskum heimildum á seinni hluta 14. aldar og verður
algengt um 1500 (ONP).
Í Hrafnagaldri er ýmis einkennileg orðnotkun sem Sophus Bugge taldi
til marks um að höfundur kvæðisins hefði viljað stæla forn kvæði en ekki
haft næga þekkingu á fornmálinu til að gera það rétt. Bugge nefnir t. d.
orðmyndirnar máttk og hveim (1867, XLVII). Til forna getur lýsingarorðið
máttig(r) haft þolfallið máttka(n). Sá sem orti Hrafnagaldur virðist hafa
þekkt þolfallsmyndina og myndað af henni nýtt nefnifall. Orðmyndin
hveim er forn sem þágufall af spurnarfornafninu hverr en það er ekki fornt
að nota orðið sem tilvísunarfornafn.
Í Gullkársljóðum eru ekki málfyrningar af þessu tagi, það sem þar er
fornlegt í máli (t. d. mundak í 9.5) er rétt með farið.
10 Einhver gæti látið sér detta í hug að tökuorð komi miklu síður fyrir í sagnakvæðum en
rímum vegna þess að fyrrnefndu kvæðin séu alþýðlegri. Sagnakvæði eru þó ekki ónæm fyrir
tökuorðum, í Hyndluljóðum yngri kemur orðið klénn þrisvar fyrir og antigna einu sinni. Þar
er einnig fleira til vitnis um að kvæðið er ungt, t. d. finnst þar ekki s-stuðlun og /j/ stuðlar
aðeins við sjálft sig.