Gripla - 20.12.2010, Side 338
GRIPLA338
burðir þeirra voru hins vegar um sitthvort atvikið og því ótækir fyrir rétti
og það sama átti við um lýsingu Þórnýjar Narfadóttur undir tveggja manna
vitnisburði sem Bjarni hafði aflað. Það sem Bjarni lagði fram fyrir réttinn
mannorði Guðrúnar til hnekkis var því ekki tekið gilt samkvæmt 4. kafla
þingfararbálks Jónsbókar en þar segir: „Svo er ef einn ber vitni með manni
sem engi beri en tveir sem tíu ...“4
Því næst skýrði sýslumaður frá fyrrgreindum viðskiptum sínum við
Bjarna á samfundi þeirra að Ögri en að þeim voru vitni. Bjarni þrætti fyrir
hegðun sína á fundinum en dró svo í land og bar við minnisleysi.
Dómsmönnum þótti þrætni hans hver annarri lík og í hæsta máta óviðeig-
andi að hann neitaði að reka vinnukonu úr vistinni sem lygi upp á hann
þvílíkum ósköpum ef hann væri í raun saklaus af því sem á hann var
borið.
Dómsmenn vísuðu til 31. kafla mannhelgi Jónsbókar, 2. greinar krist-
inréttar Árna biskups Þorlákssonar, til þess að sá sem borin væri sök skyldi
henni synja og alþingissamþykktar um óráðvandar konur frá 1. júlí 1627.5
Þeir töldu frómum manni ómögulegt að sitja undir slíkum áburði án stórr-
ar smánar og hneykslis manna á meðal. Því dæmdu þeir Bjarna séttareið til
að færast undan áburðinum og skyldi hann svarinn fyrir sýslumanni í Ögri
innan mánaðar. Bjarni hafði áður gerst sekur um hórdómsbrot og féllist
honum eiður í þetta sinn þá skyldi hann bæta brot sitt eftir því sem segir
um annað hórdómsbrot í Stóradómi. Ef hann næði hins vegar fram eiði þá
dæmdu þeir Guðrúnu húðlát eftir miskunn sýslumanns. Dómsmenn töldu
að málið mætti ekki til lykta leiðast án þess að Bjarni særi sönnunareið að
sakleysi sínu. Guðrúnu yrði svo annaðhvort refsað fyrir lygi sína ef hann
næði fram eiðnum eða hórdómsbrot sitt ef hann félli á honum.
Af því sem á eftir fylgir má sjá að Bjarni hefur ekki náð fram eiðnum.
Það þýðir að hann hafi ekki getað fengið þrjá menn til að sverja með sér en
auk tveggja fangavotta að eigin vali, var hann sjálfur hinn sjötti. Ekki er
4 Jónsbók. Lögbók Íslendinga, 84. Þórný Narfadóttir var eiginkona séra Gísla Einarssonar í
Vatnsfirði. Honum var hálfpartinn bolað burt þaðan af séra Jóni Arasyni sem tók við stað
og kirkju 29. ágúst 1636 í skiptum fyrir Stað á Reykjanesi, sbr. Annálar 1400–1800 III,
útg. Hannes Þorsteinsson (Reykjavík: Hið íslenzka bókmentafélag, 1933–1938), 2–4.
5 Jónsbók. Lögbók Íslendinga, 120; um að sá skuli synja er fyrir sök verði, sjá t. d. bls.
116, 243; Járnsíða og kristinréttur Árna Þorlákssonar, útg. Haraldur Bernharðsson, Magnús
Lyngdal Magnússon og Már Jónsson, Smárit Sögufélags (Reykjavík: Sögufélag, 2005), 147;
Alþingisbækur Íslands V, útg. Jón Þorkelsson og Einar Arnórsson (Reykjavík: Sögufélag,
1922, 1925–1932), 142–143.