Gripla - 20.12.2010, Side 344
GRIPLA344
er Snæbjörn Torfason, eigandi jarðarinnar, vígðist þangað en upp frá því
hafi kirkjurnar verið aðskildar. Ekki er ljóst hvaða heimildir hann hafði í
höndunum og ártöl hans eru sjaldnast nákvæm. Hann getur þess þó að árið
1597 hafi séra Jón skrifað Oddi Einarssyni biskupi og óskað þess að kirkjan
á Snæfjöllum mætti halda rekaítaki sínu í Kambi og Kjaransvíkurlandi sem
var kirkjujörð Holts í Önundarfirði.18
Elsta skjal sem vitað er um að séra Jón komi nálægt og sýnir að hann er
kominn að Snæfjöllum er frá 26. janúar 1594. Þá kallaði séra Snæbjörn
Torfason, prófastur milli Arnarness og Geirhólms, saman átta presta í
Vatnsfirði til að álykta um prestverk séra Jóns Loftssonar. Hann hafði
kvænst þriðju eiginkonu sinni skömmu áður og sjálfur framkvæmt athöfn-
ina. Jón prestur í Vatnsfirði var dæmdur frá embættinu ári síðar fyrir þessi
afglöp sín. Aftur á móti er yngsta skjal sem kunnugt er um að séra Greipur
komi að sem prestur að Snæfjöllum frá 9. júní 1589. Þar er hann einn af
fimm prestum sem eru á meðal dómsmanna að Mosvöllum í Önundarfirði
í tólf manna dómi um hjúskaparbrot.19 Af fyrra skjalinu má álykta að séra
Jón hafi í það minnsta verið kominn að Snæfjöllum í fardögum 1593.
Dánarár séra Greips er hins vegar ókunnugt. Hann er án efa dáinn fyrir
1601 en er talinn á lífi 1595. Ástæða þess er viðurkenningarbréf Þorleifs
Þórðarsonar, skrifað á Snæfjöllum 15. nóvember 1595, á ódagsettum vitnis-
burði Guðrúnar Jónsdóttur. Þar segist Guðrún hafa komið til Snæfjalla 16
vetra gömul en hafi nú ellefu um fertugt og hafi dvalið þar allan þann tíma.
Í vitnisburðinum segist hún hafa heyrt:
18 Lbs 175 4to, bl. 303r–305r, 341v, 344v. Eftirmaður séra Snæbjarnar Torfasonar á Kirkjubóli
var sonur hans séra Torfi. Hann missti heyrnina en vildi ekki láta brauðið af hendi heldur
fá aðstoðarmann til þess að sinna þeim verkum sem hann var ófær um. Málið var tekið
fyrir á prestastefnu á Þingvöllum 1. júlí 1650 og kemur fram í vitnisburði séra Torfa að
Kirkjubólskirkja hafi að fornu í elstu manna minnum verið annexía frá Snæfjöllum og að
presturinn þar hafi þjónað báðum sóknunum, sbr. Guðs dýrð og sálnanna velferð, 153–154.
Sjá einnig úr ævisögu Jóns Teitssonar Hólabiskups frá 1782, Biskupasögur Jóns prófasts
Halldórssonar í Hítardal. Með viðbæti II, Sögurit 2 (Reykjavík: Sögufélag, 1911–1915), 204.
Þessu er Ágúst Sigurðsson ósammála en hann dregur í efa að Snæfjallaprestur hafi einnig
þjónað Kirkjubóli í Langadal, sbr. Forn frægðarsetur II, 79–80. Hvað heimildir séra Jóns í
Hítardal varðar má geta þess að hann gegndi embætti rektors í Skálholtsskóla 1708–1710
og þá hefur skjalasafn biskupsstólsins staðið honum opið, sbr. Páll Eggert Ólason, Íslenzkar
æviskrár III, 143.
19 Lbs 67 4to, bl. 81v–83r, 150v–151v, sbr. Alþingisbækur Íslands II, 151–154.