Gripla - 20.12.2010, Page 352
GRIPLA352
var það hans fyrsta brot en hennar annað.34 Af sakeyrisreikningum
Ísafjarðarsýslu er að sjá að þetta sé eini maðurinn með nafni svipuðu Bjarna
sem kemur til greina. Þau Bjarni og Guðrún Ísleifsdóttir hafa því að öllum
líkindum þegar eftir Jónsmessu á sumri árið 1628 verið gengin í hjóna-
band.
Ólíklegt verður að teljast að Bjarni og Guðrún hafi eignast börn sem á
legg hafa komist. Að minnsta kosti hefur séra Þórði í Hítardal ekki verið
kunnugt um slíkt. Hann hefur reyndar skilið eftir eyðu fyrir börn þeirra í
ættartölubók sinni en hún hefur aldrei verið fyllt.35 Eins og fyrr greinir var
mál Bjarna tekið fyrir á prestastefnu í Garpsdal 11. september 1639. Í
prestastefnubókinni segir: „… birtist fyrir oss framburður Ara Magn ús-
sonar, hljóðandi uppá málefni Bjarna Jónssonar, hver af einni kvensnift
skal borinn hafa verið legorðssök, en maðurinn giftur í þann tíð.“36 Af
orðalaginu „giftur í þann tíð“ má ráða að svo sé ekki lengur. Hafi Guðrún
ekki andast, á þeim rúmu fjórum árum sem liðin voru frá því að Bjarni var
dæmdur til séttareiðs fyrir meint hórdómsbrot á Unaðsdalsþingi, þá virðist
sem að hún hafi skilið við bónda sinn. Samkvæmt hjónabandsartikúlum
Friðriks II. frá 2. júní 1587 voru þrjár sakir nefndar sem réttlættu hjóna-
skilnað en þær voru hórdómur, brotthvarf maka og getuleysi. Skilnaðarsökin
ein og sér var þó ekki nóg því uppfylla þurfti ákveðin skilyrði og hefur
Guðrún tæpast átt í erfiðleikum með það.37
Erfitt er að átta sig nákvæmlega á hversu lengi Guðrún Jónsdóttir var í
vist á Mýri en ætla mætti að áreiti húsbóndans hafi hafist strax við komu
hennar þangað. Að eigin sögn, í Unaðsdalsdómnum, virðist sem að hún
hafi mátt þola áleitni og ofbeldi hans í þrjú ár. Fyrsta skiptið segir hún að
34 ÞÍ. Skjalasafn Rentukammers Y. 3. Reikningar jarðabókarsjóðs 1620–1631. Örk 18,
Lénsreikningar fyrir reikningsárið 1628–1629, Ísafjarðarsýsla.
35 Ættartölusafnrit séra Þórðar Jónssonar í Hítardal I, 206.
36 Guðs dýrð og sálnanna velferð, 51.
37 Lovsamling for Island. Indeholdende udvalg af de vigtigste ældre og nyere love og anordninger,
resolutioner, instructioner og reglementer, althingsdomme og vedtægter, collegial-breve, fundatser
og gavebreve, samt andre aktstykker, til oplysning om Islands retsforhold og administration i ældre
og nyere tider I, útg. Oddgeir Stephensen og Jón Sigurðsson (Kjöbenhavn: Universitets-
Boghandler Andr. Fred. Höst, 1853), 119–122, sjá einkum 119–120. Oddur biskup Einarsson
þýddi norsku kirkjuordinansíuna og hjónabandsartikúla Friðriks II. á íslensku og voru
þeir prentaðir eftir dauða hans árið 1635 á Hólum, sjá Ein kirkju ordinantia, eftir hvörri að
allir andlegir og veraldlegir í Noregs ríki skulu leiðrétta sig og skikka sér (Hólar: [s.n.], 1635);
Hjónabands articular útgefnir af kong Fridrich (háloflegrar minningar) (Hólar: [s.n.], 1635),
kver B, bl. 1r–4v.