Gripla - 20.12.2010, Page 357
357
Efni bókarinnar er Hólagrallarinn sem Guðbrandur biskup Þorláksson
lét prenta árið 1594. Það er athyglisvert að hann skuli hafa verið skrifaður
upp á skinn aðeins sjö árum eftir að hann var gefin út á prenti. Að sögn
Árna var skrifað á skinn og brotið aflangt fjögurra blaða brot, þ. e. svokall-
að grallarabrot. Árni virðist hafa borið handritið nákvæmlega saman við
Hólagrallarann því hann getur þess að hann hafi ekki verið skrifaður upp í
heild sinni. Þannig var kollektunum, þ. e. bænum prests fyrir altari á undan
guðspjalli dagsins, bréfi Friðriks II. frá 29. apríl 1585 og formála Odds bisk-
ups Einarssonar sleppt í uppskrift séra Jóns. Árni getur þess jafnframt að á
fyrsta blaði grallarans neðan við titil ritsins hafi staðið, með sömu hendi og
á handritinu sjálfu, að skrifað hafi verið á Snæfjöllum árið 1601 af I.T.
Fangamarkið telur hann að eigi án efa að tákna Jón Þorleifsson sem hafi
verið prestur á Snæfjöllum á undan séra Tómasi Þórðarsyni. Árni segir að
sjá megi af vísitasíubók Brynjólfs biskups að í vísitasíu hans að Snæfjöllum
1643 sé þess getið að séra Jón hafi fengið kirkjunni grallarann fyrir eitt
hundrað í kirkjureikning. Fornbréfin sem skrifuð voru framan við Snæ-
fjallagrallarann voru einnig með hendi séra Jóns. Þar var á ferðinni dómur
í Vatnsfirði útnefndur af séra Jóni Eiríkssyni, officialis á Vestfjörðum, 17.
maí 1513 um landamerki á milli Ness í Grunnavík og Snæfjalla á Snæ-
fjallaströnd. Þessu fylgdi einnig staðfestingarbréf Stefáns biskups Jónssonar
á sama dómi frá 29. júní 1513.44
Hugmynd um afdrif Snæfjallagrallarans má fá með því að gaumgæfa
vísitasíubækur biskupa og prófasta. Í vísitasíu Brynjólfs biskups að Snæ-
fjöllum, frá 17. ágúst 1643, er byrjað á því að tíunda heimaland kirkjunnar
eftir vísitasíubókum þar sem fram kemur að það afmarkist af Berjadalsá og
Melhillu. Í beinu framhaldi er þess getið að samkvæmt dómsskrá kirkjunn-
ar frá 1513, sem samþykkt var af Stefáni Jónssyni biskupi, voru takmörk
heimalandsins fastsett við fossinn Míganda því staðsetning örnefnisins
Melhilla var öllum gleymd orðin. Síðar í sömu vísitasíu er minnst á að
kirkjan eigi sæmilegan kálfskinnsgrallara sem séra Jón Þor leifsson hafði
goldið í kirkjureikning. Þegar kirkjan var vísiteruð 17. ágúst 1675, í biskups-
tíð Þórðar Þorlákssonar, var eins farið að en því bætt við að fyrrnefnda
dómsskrá mætti sjá á kirkjugrallaranum.45
Það sama kemur fram í vísitasíu að Snæfjöllum 10. ágúst 1700 en þá var
44 Diplomatarium Islandicum VIII, 452–453, umrædd fornbréf er að finna á 453–455, 459.
45 ÞÍ. Biskupsskjalasafn A II, 6, bls. 82 og A II, 11, bls. 23.
NÝTT AF BJARNA JÓ NSSYNI LÖ GBÓ KARSKRIFARA