Gripla - 20.12.2010, Page 369
369NÝTT AF BJARNA JÓ NSSYNI LÖ GBÓ KARSKRIFARA
Af þessu má sjá að Melkjör Hansen var eftirliggjari Grindavíkur-
kaupmanns a. m. k. á árunum 1628–1631. Laurits Bentson var kaupmaður
í Grindavík 20. júní 1627 er tyrkneskt herskip kom til Grindavíkur. Hann
sendi átta Íslendinga út til skipsins sem voru herteknir en sjálfur flúði hann
á land upp á meðan búðir hans voru rændar. Melkjör kann því að hafa verið
í Grindavík er Tyrkir rændu verslunarhúsin þar. Hætt var að sigla á
Grindavík árið 1640 vegna þess hversu viðsjál höfnin þótti en of mörgum
kaupskipum hafði hlekkst á þar að mati verslunarfélagsins. Við það fluttist
verslunin til Básenda á Miðnesi og var þar í 24 ár er hún var flutt aftur til
Grindavíkur.71
Óljóst er hversu lengi Melkjör var viðloðandi verslunina í Grindavík
eða hvort hann hafi fylgt henni að Básendum. Hann er hins vegar að finna
á Býjaskerjum 4. maí 1631 er sex menn voru nefndir í dóm af Ólafi
Péturssyni fógeta og umboðsmanni Holgeirs Rosenkrantz höfuðsmanns.
Þar fóru þeir Grímur Bergsson lögréttumaður og Melkjör Hansen fyrir
íslenska verslunarfélaginu og kröfðust dóms um vangreiddar skuldir kaup-
manna. Grímur var umboðsmaður Hans Nansen kaupmanns en Melkjör
umboðsmaður Magnúsar Níelssonar kaupmanns. Umræddur dómur var
kallaður Býjaskersdómur og kvað á um hertari innheimtu verslunarskulda.
Lögmennirnir Árni Oddsson og Halldór Ólafsson samþykktu dóminn á
alþingi sumarið 1631 og konungur staðfesti hann með bréfi útgefnu 1. júní
1640.72
Næst er Melkjör að finna á Eyrarbakka 9. ágúst 1634 ásamt kaupmann-
inum þar Mats Mogensen, Jens Söfrensen fógeta og umboðsmanni Pros
Mundt höfuðsmanns og fleirum. Þar var þess farið á leit við Vigfús
Gíslason sýslumann í Árnessýlu að hann aðstoðaði Eyrarbakkakaupmann
við að innheimta skuldir sínar í krafti Býjaskersdóms. Vigfús brást hins
vegar hinn versti við og sagði að Býjaskersdómur myndi aldrei neitt afl hafa
í sinni sýslu og hrakyrti dóminn og þá sem staðið höfðu að honum, þ. e.
bæði fógetann og lögmennina. Þann 6. október 1634 í Vælugerði í Flóa tók
Árni Oddsson lögmaður eið af þeim Melkjör Hansen og Mats Rasmusson
71 Tyrkjaránið á Íslandi 1627, Sögurit 4 (Reykjavík: Sögufélag, 1906–1909), 223–225; Jón J.
Aðils, Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602–1787 (Reykjavík: Verzlunarráð Íslands, 1919),
265–266.
72 Alþingisbækur Íslands V, 231–234, 353; Lovsamling for Island I, 224–227; Kancelliets brevbøger
vedrørende Danmarks indre forhold i uddrag, 1640–1641, útg. E. Marquard (København:
Rigsarkivet, 1950), 170–173.