Gripla - 20.12.2010, Síða 373
373NÝTT AF BJARNA JÓ NSSYNI LÖ GBÓ KARSKRIFARA
Hann bjó í Arnarbæli á Skarðsströnd og var lögsagnari Páls í Dalasýslu árin
1696–1697. Bjarni var sonur Bjarna á Hafurshesti í Önundarfirði, sonar
Jóns dan Magnússonar á Eyri í Seyðisfirði. Hann dó í Arnarbæli árið
1723.77 Jón dan var sonur Magnúsar prúða Jónssonar og bróðir Ara í Ögri
og ætti því að hafa haft greiðan aðgang að dómabókum hans en dómasafnið
er talið skrifað um 1640. Bjarni í Arnarbæli var sonarsonur Jóns dan eins
og Árni segir og hefur dómasafnið líkast til haldist í ættinni þangað til að
Páll Vídalín eignaðist það. Óljóst er hvað varð um bókina eftir þetta en
hana er ekki að finna meðal bóka Páls eða það sem vitað er um bókasafn
hans þó sú vitneskja sé alls ekki tæmandi.78
Bókin býr yfir enn frekari upplýsingum um eigendasögu sína. Á milli
lína í fyrrnefndri áritun Árna hefur ættarnafnið Gröndal verið skrifað og
einnig rúnin maður samkvæmt íslenska rúnaletrinu. Framan við bókina er
bundið tólf blaða kver og hefur það verið gert eftir að Árni Magnússon fór
höndum um hana. Þar bregður Gröndalsnafninu aftur fyrir, auk mannrún-
arinnar sem í þetta sinn hefur bókstafinn a sér við hlið. Að endingu stend-
ur: „Steingrímur Jónss(on) á 1829.“
Ef skoðaðar eru tvær skjalabækur sem áður hafa fylgt henni, en eru nú
varðveittar á Þjóðskjalasafni, fæst skýring á því hvað mannrúnin táknar. Í
bókunum er að finna sömu eignayfirlýsingar og í Lbs 65 4to, þ. e. ættar-
nafnið Gröndal, táknið fyrir mannrún og bókstafina b og e. Bjarni Thor-
steinsson amtmaður skrifar á saurblöð framan við báðar bækurnar að Skúli
Magnússon landfógeti hafi átt bækurnar því sig reki minni til að hann hafi
verið vanur að nota rún þessa í stað nafns síns.79 Í hinni skjalabókinni sem
táknuð er með bókstafnum b er að finna laust fjögurra blaða kver með efn-
isyfirliti í tímaröð yfir báðar bækurnar. Í lok efnisyfirlitsins hefur Bjarni
amtmaður skrifað:
77 Einar Bjarnason, Lögréttumannatal, Sögurit 26 (Reykjavík: Sögufélag, 1952–1955), 50; Páll
Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár I, 158–159.
78 Alþingisbækur Íslands I, 74 og víðar en dómasafnið er mikið notað í fyrstu fimm bindunum
en aldur þess er væntanlega byggður á aldri yngstu dómanna í safninu. Um bókasafn Páls
Vídalíns, sjá Jón Helgason, „Bækur og handrit á tveimur húnvetnskum höfuðbólum á 18du
öld,“ Landsbókasafn Íslands Árbók 1983. Nýr flokkur 9 (1985): 4–46.
79 Skrá um skjöl og bækur í Landsskjalasafninu í Reykjavík I, 1. Skjalasafn hirðstjóra, stipt-
amtmanna og landshöfðingja (Hér er og í skjalasafn amtmanna yfir alt land fram að 1770, og
Suðuramt fram að 1873) (Reykjavík: [s.n.], 1903), 84. ÞÍ. Skjalasafn Öxarárþings. Dómabók
Jóns Sigurðssonar lögmanns. Um dómabók þessa, sjá Sveinbjörn Rafnsson, „Skjalabók
Helgafellsklausturs. – Registrum Helgafellense –,“ Saga 17 (1979): 171–174.