Gripla - 20.12.2010, Page 375
375NÝTT AF BJARNA JÓ NSSYNI LÖ GBÓ KARSKRIFARA
var á meðal þeirra handrita sem Árni fékk að láni en skilaði aldrei. Í hand-
ritaskrá Árnasafns telur Kristian Kålund bókavörður að það sé skrifað af
séra Sigurði sjálfum. Hannes Þorsteinsson telur þó líklegra að skrifarinn sé
Jón Þórðarson sem ólst upp hjá séra Sigurði, útskrifaðist úr Hólaskóla
skömmu fyrir 1700 og dvaldist í Holti til 1708 er hann fékk Sanda í
Dýrafirði.84
Loks er það Lbs 872 4to sem er án titilblaðs en er afrit af fyrrnefndu riti
Magnúsar Magnússonar. Páll Eggert Ólason telur í handritaskrá að það sé
skrifað um 1690 af hendi svipaðri Þórðar Jónssonar á Strandseljum. Við
nánari athugun má sjá að handritið getur ekki verið skrifað fyrir 1699 því í
tvígang er miðað við það ártal þegar reiknað er út hve langt var liðið síðan
ákveðnir atburðir áttu sér stað. Einnig má sjá að handritið hefur allt verið
skrifað fyrir 26. apríl 1710 en þá var lesin upp bón Jóns Jónssonar, skrifuð
á Kirkjubóli 26. maí 1709, um að Þorsteinn bróðir hans tæki sig að sér
vegna veikinda sinna. Þorsteinn samþykkti það á þingi á Nauteyri 26. apríl
1710 gegn því að hann mætti ráðskast með peninga Jóns eins og þeir væru
hans eigin. Þetta er skrifað inn í bókina af þáverandi eiganda hennar og
virðist um samtímahönd að ræða sem þó er ekki sú sama og er á bókinni
allri. Handritið ætti því samkvæmt þessu að vera skrifað á bilinu 1699–1710
en tæpast af Þórði Jónssyni því hann var virkur á 6. til 8. áratug 17. aldar og
er talinn dáinn fyrir 1699.85
84 Katalog over den Arnamagnæanske håndskriftsamling I (København: Gyldendalske boghandel,
1889), 467–468; Annálar 1400–1800 III, 235; Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár III,
307. Mariane Overgaard telur þó að aðeins eitt handrit sé til með hendi séra Jóns, sbr. „Séra
Jón Þórðarson på Sandar og hans skrivernavnefælle,“ Equus Troianus sive Trójuhestur tygjaður
Jonnu Louis-Jensen 21. október 1986 (Reykjavík: [s.n.], 1986), 57. Hún notast við Æfir lærðra
manna eftir Hannes Þorsteinsson í grein sinni en minnist ekkert á umfjöllun hans í ann-
álaútgáfunni heldur aðeins vandræði Páls Eggerts Ólasonar við að greina nafnana í sundur.
Hannes telur þó að ÍB 15 fol. sé með hendi séra Jóns auk ýmissa jarðaskjala sem varða séra
Sigurð í Holti og varðveitt eru í jarðabókarskjölum Ísafjarðarsýslu í Þjóðskjalasafni, sbr.
Annálar 1400–1800 III, 167. Áhuga Mariane Overgaard á séra Jóni Þórðarsyni má rekja til
væntanlegrar útgáfu hennar á nokkrum íslenskum þýðingum á erlendum almúgabókum en
forsmekkinn af útgáfustarfinu er að finna í greininni, „De islandske oversættelser af De tolv
patriarkers Jacobs sønners testamenter og af Josephs og Assenaths historie, med en udgave
af Josephs Testamente,“ útg. Mariane Overgaard. Opuscula IX, Bibliotheca Arnamagnæana
39 (København: Reitzel, 1991), 203–300. Á meðal handrita sögunnar er ÍB 866 8vo sem
mun skrifað af séra Jóni á Söndum, sjá 246–247.
85 Lbs 872 4to, bls. 12–13, 248–249; Loth, „Angående skriveren Jón Þórðarson,“ 40–41. Þess
má geta að Már Jónsson minnist stuttlega á ágrip Unaðsdalsdómsins í Lbs 872 4to, sjá
Blóðskömm á Íslandi 1270–1870 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1993), 179.