Gripla - 20.12.2010, Page 392
GRIPLA392
Fjörður þessi inn að nefndum Oddum hét eftir landnámstíð án efa
(eða líklega) Urthvalafjörður, en seinna Hvalafjörður og seinast
Hvalfjörður, og hefi ég heyrt einstöku eldri menn rofa í nafn þetta.
Nafnið Urthvalafjörður hefur Helgi prestur haft úr útgáfu Guðbrands
Vigfússonar af Eyrbyggju 1864, og sú ályktun hans að Hvalafjörður hafi
verið nafn á firði þeim sem nú heitir Kolgrafafjörður hygg ég að sé ekki út
í bláinn, og augljóst er að fjörðurinn er nefndur sem innri mörk landnáms
Vestars. Ytri mörk landnámsins eru ekki nefnd í Eyrbyggju, en í Sturlubók
Landnámu segir að Vestarr ‘nam Eyrarlǫnd ok Kirkjufjǫrð’ og í Hauksbók
‘Eyrarland (‘-land’ villa fyrir ‘-lǫnd’) ok á millim Kirkjufjarðar ok Kol-
grafafjarðar’. Í Melabók er texti afbakaður.
Ólafur Lárusson rekur í sinni bók (á bls. 89–93) heimildir um fjarða-
nöfnin Grundarfjörður og Kirkjufjörður og rök fyrir því að þau eigi við
einn og sama fjörð. Þetta er augljóst, og einnig það, að nöfnin Kirkjufell og
Kirkjufjörður eru yngri en nafnið Grundarfjörður og hafa ekki komið upp
fyrr en eftir kristnitöku og byggingu kirkna, þegar menn hafa tekið eftir að
fellið minnti á kirkju. En aldrei verður vitað hvað fellið hafi heitið áður.
Í Eyrbyggju er engin grein gerð fyrir landnámum utar á nesinu eða land-
námsmönnum, enda koma þeir ekki við sögu nema Ormur mjóvi á Fróðá
sem er sagður faðir Þorbjarnar digra. (Íf. IV, 27). Þar eru heldur ekki
nefndir tveir menn sem í Landnámu eru sagðir hafa numið lönd á svæðinu
milli Grundarfjarðar og Stafár: Kolur í Kolgröfum og Auðun stoti:
Kolur, Melabók: ‘Kolr hét maðr er nam land út frá Trǫllahálsi ok út
frá Fjarðarhorni, Borðeyri7 til Hraunsfjarðar,..’ — Stb, Hb: ‘Kolr hét
maðr er nam land (land nam Hb) útan frá Fjarðarhorni til Trǫllaháls
ok út um Berserkseyri til Hraunsfjarðar.’
Auðun stoti, Melabók: ‘Auðun stoti hét maðr er nam Hraunsfjǫrð
inn frá Svínavatni fyrir ofan Hraun til Trǫllaháls; ...’ — Stb, Hb:
‘Auðun stoti .. (hann Hb) nam Hraunsfjǫrð allan fyrir ofan Hraun á
milli (millim Hb) Svínavats ok Trǫllaháls...’
Í Eyrbyggju og Landnámu segir frá Geirröði sem nam land fyrir innan
(austan) Þórsá, innri mörk landnáms Þórólfs Mostrarskeggs:
7 Borðeyri er næsta víst að sé villa fyrir Berserkseyri, sjá LandnSnæf., 96–97.