Gripla - 20.12.2013, Blaðsíða 275
275
(2) náði hun þa litlum knifi or skeidunum. ok pikaði hálsinn a grað-
unginum (hdr. frá um 1350).
(3) fann hún með sér, at hún var stúngin innan, því líkast sem þá er
maðr pikkar sjálfs síns kjöt með nálarodd (hdr. frá 1350–1365).
næg dæmi (67) eru um sögnina í ritmálssafni orðabókar Háskólans allt
frá síðari hluta 16. aldar fram á síðari hluta 20. aldar, oftast í sömu eða
svipaðri merkingu og elstu dæmin. sum yngstu dæmin, frá miðri 20. öld
og síðar, hafa aðra merkingu og eru nýlán úr ensku eða dönsku: ‚tína e-ð
upp/út úr e-u‘, ‚halda e-u að e-m‘ („var að smádreypa á brennivínspela, sem
samferðamaður minn var alltaf að pikka að mér“); í merkingunni ‚vélrita‘
og ‚leika á píanó‘ er orðið jafnvel hljóðlíking. Þessi dæmi koma ekki við
sögu hér.
Það er sjálfsögð fyrsta ályktun að orðið pikka í B- og C-gerðunum
endurspegli sama orð í A-gerð. en aðrar skýringar eru líka hugsanlegar.
Það mætti t.d. hugsa sér að orðið finnvitka, sem fyrir okkur er hapax
legomenon eða stakdæmi, hafi verið svo ókunnuglegt þeim sem setti saman
forrit B- og C-gerða upp úr A-gerðinni að sá hafi einfaldlega reynt að finna
skiljanlegra orð og gripið tökuorðið pikka, sem lá vel við.
Þegar betur er að gáð er þó jafnlíklegt að forrit B- og C-gerðanna hafi
á þessum stað annað hvort haft sama texta og Flateyjarbók, finnvitkaði, eða
e.t.v. vitkaði, þátíð sagnarinnar vitka, ‚galdra, töfra‘. í forritinu hafi „v“ í
(-)vitkaði verið svokallað eyja-v (insular-v), þ.e. ⟨ꝩ⟩, sem líkist mjög „p“.
Það var einkum notað í upphafi orða og er vel þekkt í íslenskum ritum frá
um 1200 og út 13. öld.24 Auk þess hafi „t“ í orðinu verið þeirrar gerðar sem
líkist mjög „c“ og var oft nánast óaðgreinanlegt frá því, þ.e. ⟨ꞇ⟩.
ef gert er ráð fyrir fyrri kostinum hefur ritmyndin finnꝩiꞇkadi, e.t.v.
skrifuð í tvennu lagi, finn ꝩiꞇkadi, verið ranglesin sem „finnpickadi“ („finn
pickadi“) en það síðar leitt af sér leshátt yngri gerðanna (vh.þt. pikkaði varð
pikkuðu þegar viðtengingarháttur þátíðar tók upp endingar fram söguháttar).
Hvernig sú breyting hefur orðið er annað mál og flóknara að skýra. Þessi
tilgáta bætir að vísu ekki við neinum raunverulegum dæmum um sögnina
finnvitka; hún er enn eindæmi í fornu máli. en sé tilgátan rétt, að forrit
24 stefán karlsson, „the development of Latin script II: in Iceland,“ í The Nordic Languages:
An International Handbook of the History of the North Germanic Languages, ritstj. oskar
Bandle et al., 1. b., Handbücher zur sprach- und kommunikationswissenschaft, 22. b.
(Berlin: Walter de Gruyter, 2002), 837.
uM sÖGnInA FINNVITKA í FLATEYJARBÓK