Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Page 5
AF SANNLEIKA oG LyGI Í SÖGULEGUM SKILNINGI
5
markalínur sannleika og uppspuna. Þannig gæti samsláttur heimspeki og
bókmennta búið í haginn fyrir hið óorðna.
Þegar sagan af sambúðarerjum heimspeki og bókmennta er rakin er
vandratað fram hjá hinni alræmdu gagnrýni Platons á skáldin sem hann
setti fram í fullmótaðri mynd í sinni miklu bók Ríkinu. Raunar má skoða
þessa neikvæðu afstöðu Platons til skáldskapar í ljósi álits hans á skrifum
sem kemur hvað skýrast fram í samræðu hans Faídrosi: um leið og hugs-
unin er skrifuð niður glatast eitthvað, einhver hætta skapast sem ekki verð-
ur losnað við upp frá því. Alkunna er að lærifaðir Platons, sjálfur Sókrates,
skrifaði aldrei neitt, heldur hélt sig við að ræða við fólk augliti til auglitis
og þýfga það um það sem það vissi – eða taldi sig vita. Þannig virðist
Sókrates, a.m.k. í samræðum Platons, fara nærri því að vera hreinn heim-
spekingur. En allir vita hvernig það fór: Sókrates var ákærður fyrir ýmsar
sakir og látinn drekka eitur. Við réttarhöldin flutti hann varnarræðu sem
Platon færði til bókar og hefur æ síðan þótt glæsilegt dæmi um mikilleik
Sókratesar. En er sú Málsvörn Sókratesar sem hefur skilað sér til okkar,
þökk sé Platoni, örugg heimild um þá ræðu sem í reynd fór um munn
Sókratesar við réttarhöldin? Gunnar Harðarson færir í grein sinni hér í
heftinu ítarleg rök fyrir því að svo sé ekki: Málsvörnin sé svo þaulhugsað og
listilega samsett bókmenntaverk að erfitt sé að ímynda sér að Sókrates hafi
mælt hana af munni fram, og þar að auki hafi Málsvörnin að geyma svar
Platons sjálfs við aðfinnslum við persónu og athafnir Sókratesar sem
Aristófanes kom fyrir í gamanleik sínum Skýjunum. Raunar séu Skýin eins
konar „undirtexti“ Málsvarnarinnar.
Platon ber einnig á góma í grein Róberts Jacks um íslenska efnahags-
hrunið, og er þar raunar í aðalhlutverki. Róbert rekur hvernig Platon lýsir
þróuninni frá fámennisstjórn til lýðræðis í VIII. bók Ríkisins og dregur
fram sláandi hliðstæður við Ísland síðustu ára eða áratuga. Við verðum svo
að vona að þróunin haldi ekki áfram á sömu leið og Platon lýsir – því að
hann telur að lýðræðisskipulag hljóti fyrr eða síðar að líða undir lok og
verða að harðstjórn. Ráðið sem Róbert bendir á til að koma í veg fyrir
slíkar hörmungar er alhliða menntun borgaranna.
Slík menntun er einmitt viðfangsefni Steinars Arnar Atlasonar í grein
sinni um hið merka miðaldarit Um hugfró heimspekinnar eftir Bóethíus.
Steinar heldur því fram að verk þetta snúist ekki fyrst og fremst um þaul-
hugsaðar og skýrt afmarkaðar rökfærslur heldur felist inntak verksins í
andlegri æfingu af þeim toga sem frönsku heimspekingarnir Pierre Hadot