Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Síða 39
39
er frá varnarræðunni sagt.3 Tvennt er hér tiltekið sem rennt gæti stoðum
undir það. Fyrra atriðið er sú skoðun að orðfæri Sókratesar hafi verið svo
sérkennilegt og skoðanir hans svo einfaldar að Platon hafi átt auðvelt með
að vera trúr hvoru tveggja. En spyrja má hvort orðfæri og skoðanir
Sókratesar birtist ekki með svipuðum hætti í síðari ritum, t.d. í sókratísku
samræðunum, sem allir fræðimenn eru sammála um að séu að mestu leyti
tilbúningur Platons sjálfs þó að sjónarmiðin í þeim kunni að standa nær
sjónarmiðum Sókratesar en Platons seinna meir. Heimildirnar sem við
höfum um skoðanir Sókratesar í þessum efnum eru reyndar mestan part
rit Platons. og ef ummælin um orðfærið og skoðanirnar eru einskorðuð
við Málsvörnina er auðsýnt að aftur er gengið út frá því að hún hafi verið
rituð stuttu eftir að hin munnlega vörn var flutt. – Síðara atriðið er að það
hefði ekki verið „samboðið virðingu hans fyrir meistaranum“ að segja ekki
satt og rétt frá um þetta hvort tveggja. En leiðir þá ekki af því þá mótsögn
að það hefði ekki verið samboðið virðingu Sókratesar að semja uppdikt-
aðar samræður síðar meir og viðra þar skoðanir sem allir vissu að Sókrates
hefði aldrei haldið fram? Þetta gildir þá því aðeins að ræðan sé samin
skömmu eftir vörnina. Við þetta bætist að samkvæmt heimildum, sem eru
að vísu sagðar ótraustar, á Sókrates sjálfur að hafa andmælt lýsingu Platons
á sér í samræðunni Lýsis og sagt að þar væri margt sem ekki væri sannleik-
anum samkvæmt.4
Nú er Sigurður Nordal ekki einn um þá skoðun að Málsvörnin í búningi
Platons sé trúverðug heimild um hina raunverulegu ræðu Sókratesar. John
Burnet hélt þessu fram í margrómaðri útgáfu sinni5 og W.K.C. Guthrie
var á svipaðri skoðun í verki sínu um heimspeki fornaldar. Guthrie færir
einnig þau rök fyrir tímasetningu verksins að ætlun þess sé að birta varnar-
ræður Sókratesar og því sé eðlilegt að gera ráð fyrir að það hafi Platon gert
3 Þetta stenst þó ekki að öllu leyti hvað rit annarra höfunda en Platons varðar, sjá
kafla II hér á eftir.
4 „Sókrates á að hafa heyrt upplestur á samræðunni Lýsis og sagt: „Herakles! En
hvað þessi ungi maður segir margt ósatt um mig!“ því í samræðunni var fjölmargt
sem Sókrates hafði aldrei sagt. Heimildin fyrir þessari sögu er reyndar ótraust“
(Geir Þ. Þórarinsson, „Hvernig er vitað að hugmyndirnar sem Sókrates heldur
fram í samræðum Platons tilheyri Platoni en ekki Sókratesi?“, Vísindavefurinn
14.9.2005, http://visindavefur.is/?id=5263. Skoðað 10.2.2010).
5 Sbr. inngang hans að Málsvörninni í Plato, Euthyphro, Apology of Socrates, and Crito,
útg. John Burnet, oxford: Clarendon Press, 1924, bls. 63–66.
SKýIN oG MÁLSVöRN SÓKRATESAR