Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Side 91
91
undir rúminu. En tungumál geta einnig verið aðskilin í tíma, og þá geta
misgengi af þessu tagi orðið erfið viðureignar. Vera má að þegar orðið
„ſanleıcr“ í forníslensku er endurritað án athugasemdar sem „sannleikur“
hafi þýðandi látið glepjast af fölskum vini.
Í grein sinni „Um turna Babel“56 verður Jacques Derrida tíðrætt um
tíðræðni Walters Benjamin um sannleikshugtakið57 – ekki (fyrst um sinn)
sannleikshugtak okkar eða Ara, heldur þann ósnertanlega kjarna í orðinu
sem ávallt verður eftir þegar orðið er þýtt á annað tungumál – ósnertanleg-
ur, óþýðanlegur, en þarfnast samt þýðingar til að birtast rétt sem snöggvast
sem dýrmæt vitneskja um tungumál sannleikans, die Sprache der Wahrheit.
Ég vitna í Derrida sem vitnar í Benjamin, sönnunarmenn mína í það
vætti:
Nánar tiltekið má tilgreina þennan eðliskjarna sem það í þýð-
ingunni sem ekki verður þýtt á ný. Því hægt er að sækja eins
mörg skilaboð í hann og mann lystir og þýða þau, en þá liggur
ósnert eftir það sem starf hins sanna þýðanda beindist að.58
En hvernig getur þýðandi orðið sannur? Er þetta einkunn eða tvígildi? Svo
virðist sem sannleikurinn í ritgerð Benjamins, eins og Derrida skilur hann,
eigi hvorki við sagnfræðilegan sannleik né sanna þegnhollustu við helga
frumheimild:
Hér er hvorki um að ræða sannleika þýðingar að því leyti að hún
væri í samræmi við eða trú fyrirmynd sinni, frumtextanum. Né
heldur, að því er varðar frumtexta eða jafnvel þýðingu, einhverja
nálgun tungumáls við merkingu eða við raunveruleikann, enn
síður við einhverja táknmynd um eitthvað.59
56 Jacques Derrida, „Um turna Babel“, þýð. Jóna Dóra Óskarsdóttir, Ritið 3/2004,
bls. 181–216.
57 Walter Benjamin, „Verkefni þýðandans“, þýð. Ástráður Eysteinsson, Fagurfræði og
miðlun, Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008, bls. 185–201.
58 Benjamin, „Verkefni þýðandans“, bls. 192. Ég bæti við „á ný“ með tilliti til frönsku
þýðingarinnar eftir Maurice de Gandillac sem Derrida styðst við („qui, dans la
traduction, n’est pas à nouveau traduisible“). orðalag Benjamins er „was an ihr
selbst nicht wiederum übersetzbar ist“.
59 Derrida, „Um turna Babel“, bls. 203; ég hef hnikað þýðingunni örlítið til. „Il ne
s’agit ni de la vérité d’une traduction en tant qu’elle serait conforme ou fidèle à
son modèle, l’original. Ni davantage, du côté de l’original ou même de la traduc-
tion, de quelque adéquation de la langage au sens ou à la réalité, voire de la repré-
sentation à quelque chose.“
LÖGHEIMILI SANNLEIKANS