Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Qupperneq 141
141
ari skoðun sem ég hafði numið af þér í ró og næði og vildi ýta í
framkvæmd við opinbera stjórnsýslu. Þú og Guð, sem sáði þér í
huga vísra manna, þið vitið að við stjórnarstörf gekk mér ekkert
til nema almenn löngun til alls góðs. (8)
Jafnframt segir Bóethíus að „fyrir verðlaun sannrar dygðar“ taki hann á sig
„refsingu fyrir falskar ásakanir“ (11) en hann stendur því í sömu sporum
og Sókrates frammi fyrir ásökunum um að spilla ungviðinu; enda sagði
Sókrates að „sá sem ætlar verulega að taka málstað réttlætisins, verður að
lifa embættislaus og skipta sér ekki af stjórnmálum, ef hann á að halda lífi,
þótt ekki sé nema skamma hríð“.6 Leiða má líkur að því að verkið eigi sér
hugmyndalega fyrirmynd í Málsvörn Sókratesar, en bæði verkin segja frá
raunverulegum mönnum sem dæmdir voru til dauða þrátt fyrir eindreginn
vilja til að gera gott og leituðu síðan huggunar í faðmi heimspekinnar.
Það er afar áhugavert að í byrjun verksins kemur fram að því sé ekki
ætlað að vera hreinn skáldskapur, enda notar Bóethíus bókmenntirnar eða
skáldskapinn algjörlega í þágu heimspekinnar. Þessi afstaða Bóethíusar er
endurómur af gagnrýni Platóns á skáldskapinn í Ríkinu: Bóethíus lætur
Heimspekina reka Músurnar eða Listagyðjurnar á dyr, líkt og Platón gerir
skáldin útlæg úr Fögruborg. Heimspekin er í huga beggja mikilvægari en
skáldskapurinn, enda tákngerir Bóethíus bókmenntirnar og skáldskapinn
sem Sírenur „sem sveigja huga mannsins undir sjúkleika, en frelsa hann
ekki“ (3) en Heimspekin sem vitjar hans vill á hinn bóginn að Bóethíus
verði látinn eftir Meyjum hennar „til umönnunar og lækninga“ (3). Platón
taldi afl skáldskaparins felast í því að hann höfðaði til ástríðna mannsins og
að maðurinn gæti fengið útrás fyrir tilfinningar sínar í gegnum skáldskap-
inn, en það er einnig ástæða þess að hann taldi að skynseminni – þeim
hluta sálarinnar sem að öllu jöfnu leitast við að iðka réttlæti, sækjast eftir
dyggð og lifa í samræmi við sannleikann – stafaði hætta af skáldskapnum.
og þess vegna beinist gagnrýni bæði Platóns og Bóethíusar „ekki að skáld-
skapnum sjálfum, heldur siðferðilegu inntaki skáldverka og áhrifum þeirra
á njótendur“.7
6 Platón, „Málsvörn Sókratesar“, Síðustu dagar Sókratesar, þýð. Sigurður Nordal,
Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1996 (1. útg. 1973), bls. 56.
7 Gunnar Harðarson, „Óðs manns æði? Um afstöðu Platóns til skáldskapar“, Til-
raunir handa Þorsteini. Afmæliskveðjur til Þorsteins Gylfasonar ríflega fimmtugs,
Reykjavík: Heimspekistofnun og Háskólaútgáfan, 1994, bls. 133–134.
„GÓðUM MANNI GETUR EKKERT GRANDAð“