Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Blaðsíða 152
152
Kants. Grunnhugmynd Sartres um bókmenntir, og þá á hann við skáldsögur, er
á þá leið að frelsið sé skilyrði bókmenntanna, skriftir séu frjáls athöfn sem felur
í sér gjöf til lesandans sem er frjáls að því að þiggja hana og endurskapa í huga
sér ritverkið með öllum víddum þess. Pólitískt frelsi, einstaklingsfrelsi og rit-
frelsi eru samofin og tengjast lýðræðislegri stjórnskipan. Sú skoðun að frelsið sé
skilyrði bókmenntanna er vissulega liður í þeirri heildarrökfærslu að rithöfund-
ar eigi að skrifa afstöðubókmenntir, en þessi kafli getur einnig staðið sem sjálf-
stæð greining á eðli og skilyrðum lestrar og skrifta og sambands þess við hinar
ýmsu hliðar frelsisins.
Þýðingin, sem hér birtist að ósk ritstjóra Ritsins, er að stofni til frá námsárum
þýðandans í almennum bókmenntum við Háskóla Íslands, þegar Vésteinn
Ólason, þá prófessor í almennum bókmenntum, hafði uppi hugmyndir um að
þýða nokkur þekkt fræðileg verk úr heimi bókmenntanna. Ekki varð úr því að
þessar greinar yrðu gefnar út saman en nokkrar þeirra birtust á öðrum vettvangi
og er þessi líklega síðust, að sinni að minnsta kosti, þó að lengi sé von á einum.
Ritstjórar Ritsins hafa lesið þýðinguna yfir, ásamt þýðanda, og hefur hún því
verið yfirfarin og lagfærð og eru ritstjórum færðar þakkir fyrir framlag sitt í því
efni.
Gunnar Harðarson
Hver hefur sínar ástæður: einum er listin flótti, öðrum leið til vinnings. En
það má flýja inn í einangrun, inn í brjálæði, inn í dauðann. Það má vinna
með vopnum. Hversvegna einmitt að skrifa, flýja og sigra með skrifum?
Vegna þess að bakvið hinar mismunandi ástæður rithöfunda leynist djúp-
stæðara og óskoraðra val, sem er öllum sameiginlegt. Við munum reyna að
skýra þetta val, og við munum sjá hvort það er ekki einmitt í nafni þess, að
þeir hafa kosið sér að skrifa, að krefjast verður þess að rithöfundar taki
afstöðu.
Sérhverri skynjun okkar fylgir vitund um að mannlegur veruleiki sé
„afhjúpandi“, þ.e. að það er fyrir tilstilli hans að veran „sé“ eða með öðrum
orðum að það sé fyrir atbeina mannsins sem hlutirnir koma í ljós. Vera
okkar í heiminum margfaldar venslin innan hans. Það erum við sem
komum á sambandi milli trésins þarna og þessa geira himinhvolfsins. Það
er okkur að þakka að þessi stjarna, sem kulnaði fyrir þúsundum ára, þessi
mánasigð og þetta dimma fljót, afhjúpast sem ein heild: landslag. Það er
hraði bifreiðar okkar og flugvélar sem kemur skipan á víðáttur jarðarinnar.
Við sérhverja athöfn okkar sýnir heimurinn á sér nýtt andlit. En þó að við
vitum að það séum við sem uppgötvum veruna, vitum við jafnframt að við
höfum ekki skapað hana. Ef við snúum okkur burt frá þessu landslagi,
Jean-Paul saRtRe