Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Side 182
182
væru önnum kafnir við að fjölga sér. Ah! sagði hann, ég hef staðið náttúruna
að verki. En hann lét glepjast af því sem við blasti, sem gerist alltof oft
hvort sem notuð er smásjá eður ei.
Sjötti kafli: Það sem henti þá meðal mannanna
Míkrómegas, sem tók mun betur eftir en dvergurinn, sá glögglega að
atómin töluðu saman og hann hafði orð á því við förunaut sinn, sem
skammaðist sín fyrir að hafa skjátlast varðandi æxlunarþáttinn og vildi ekki
trúa því að slíkar tegundir gætu skipst á skoðunum. Hann hafði tungu-
málahæfileika rétt eins og Síríusbúinn, hann heyrði atómin okkar ekki tala
og gerði ráð fyrir að þau töluðu ekki. Hvernig gætu þessar ógreinilegu
verur svo sem haft talfæri og hvað hefðu þær að segja? Til þess að tala þarf
að hugsa, eða næstum því, þannig að ef þær hugsuðu þá hefðu þær ígildi
sálar. og honum fannst fáránlegt að eigna þessari tegund ígildi sálar. „En,
sagði Síríusbúinn, rétt áðan hélduð þér að þau væru að elskast. Haldið þér
að hægt sé að elskast án þess að hugsa og án þess að láta út úr sér einhverja
setningu, eða að minnsta kosti án þess að láta í sér heyra? Haldið þér ann-
ars að það sé erfiðara að búa til rök en barn? Í mínum huga virðist hvort
tveggja vera mikil ráðgáta. – Ég þori hvorki að trúa né neita lengur, sagði
dvergurinn; ég hef ekki skoðun á neinu. Við verðum að reyna að rannsaka
þessi skordýr og svo rökræðum við. – Þetta er mjög vel mælt,“ hélt
Míkrómegas áfram og dró jafnskjótt upp skæri sem hann notaði til að
klippa á sér neglurnar, og með afklippu af nögl þumalfingurs bjó hann
umsvifalaust til nokkurs konar stóran talandi lúður, eins og gríðarstóra
trekt, og stakk rörinu í eyrað. Útjaðar trektarinnar umlukti skipið og alla
áhöfnina. Veikasta röddin fór í gegnum hringþræði naglarinnar, þannig að
heimspekingurinn fyrir ofan heyrði fullkomlega suðið í skordýrunum
okkar að neðan, þökk sé hugvitssemi hans. Eftir nokkrar klukkustundir
tókst honum að greina orðaskil og að lokum að heyra frönsku. Dvergnum
tókst þetta líka, með meiri erfiðismunum þó. Undrun ferðalanganna jókst
með hverju augnabliki. Þeir heyrðu mölflugur tala af nokkuð mikilli skyn-
semi og þessi leikur náttúrunnar var þeim óskiljanlegur. Þið megið trúa því
að Síríusbúinn og dvergurinn brunnu í skinninu að eiga samræður við
atómin. Dvergurinn óttaðist að þrumuraust sín, og einkum rödd Míkró-
megasar, myndi æra mölflugurnar án þess að þær skildu neitt. Það varð að
draga úr styrknum. Þeir settu eins konar litla tannstöngla í munninn og
létu oddhvassa endann liggja að skipinu. Síríusbúinn setti dverginn á hné
VoltaIRe