Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 19
19
tjáningarforma, í einhverskonar brotaformi. Módernískar bókmenntir
spanna þó breitt svið að þessu leyti, allt frá flæðandi ofgnótt til meinlæta-
sams niðurskurðar. Þessi róttækni getur verið drifkraftur í nýsköpunar-
starfi, en hún er vitaskuld engin trygging fyrir listrænu framlagi, hvernig
svo sem það er metið. En það er einmitt hið fræðilega mat á módernism-
anum sem ýmsir hafa viljað endurskoða á síðustu árum og telja að fag-
urfræðilegar áherslur á form, hefðarrof og nýbreytni í tjáningu hafi notið
forréttinda sem leggja beri af, og jafnframt hafa menn leitast við að útvíkka
módernismahugtakið og láta það ná yfir nútímabókmenntir í menningar-
legum fremur en fagurfræðilegum skilningi. Í þeirri umræðu hefur það
viljað brenna við að fagurfræðin sé beintengd formalisma. Þannig segir
til dæmis í inngangi að nýlegu safnriti greina um módernisma, The Oxford
Handbook of Modernisms: „Hin formalíska túlkun bókmennta og sjónlista
var fullkomlega við hæfi þegar óhlutbundin málverk og mállega flókin
ritverk voru annars vegar, og hún var að verulegu leyti ábyrg fyrir fræði-
legri upphafningu módernismans, en nýrýnin sjálf var raunar sprottin af
honum.“23
Það er vissulega rétt að fræðileg formrýni á drjúgan þátt í vegsömun
ýmissa verka og höfunda sem kennd eru við módernisma, en formrýni er
ekki eingöngu stunduð af nýrýnendum (auk þess sem það er alltof mikil
einföldun að segja að nýrýni hafi sprottið af módernisma í bókmenntum
og listum). Sumir þeirra sem lagt hafa áherslu á menningarandóf og sam-
félagslegt samhengi módernískrar listar hafa talið hina formlegu róttækni
lykilatriði í því tilliti. Einna fremstur í þeim flokki er þýski marxistinn
Theodor Adorno, en bók hans Ästhetische Theorie („Fagurfræðileg kenn-
ing“) fjallar að verulegu leyti um nútímalist og er með merkari bókum um
módernisma. Adorno telur formróttækni andspænis hefðum og viðteknum
boðskiptamynstrum vera lykilatriði í módernismanum og gengur jafnvel
svo langt að segja að í módernismanum búi almennt neikvæð afstaða til
hefðar – hann afneiti hefðinni.24 Þetta endurómar afstöðu Auerbachs að
23 „The formalist approach to literature and the visual arts was perfectly suited to
linguistically complex writing and to abstract painting, and was thus to a great
extent responsible for the critical valorization of modernism, out of which the
New Criticism had itself emerged.“ Tilvitnun er úr inngangi („Introduction“)
eftir Peter Brooker, Andrzej Gąsiorek, Deborah Longworth og Andrew Thacker
að The Oxford Handbook of Modernisms, en þau eru jafnframt ritstjórar bókarinnar,
Oxford: Oxford University Press, 2010, bls. 1–13, hér bls. 7
24 Theodor W. Adorno, Ästhetische Theorie (Gesammelte Schriften, 7. bindi), ritstj.
Gretel Adorno og Rolf Tiedemann, Frankfurt am Main: Suhrkamp, 1970, bls. 38.
FRÁSAGNARKREPPUR MÓDERNISMANS