Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 89
89
Einar Jónsson skipar sérstakan sess í hópi frumherja íslenskrar myndlistar,
ekki aðeins vegna þess að hann er eini myndhöggvarinn, heldur vegna
táknsærrar merkingar „karlmannlegra“31 höggmynda, þar sem saman fara
vísanir í trú, norræna goðafræði og þjóðsögur. Táknsæið heillar hina ungu
menntamenn ekki síður en einbeitt afstaða listamannsins og listræn sýn,
sem er án málamiðlana. Þeir eiga auðvelt með að samsama sig verkum
Einars Jónssonar, sem gefa þeim jafnframt færi á að undirstrika eigin and-
lega yfirburði og festa sig í sessi sem hluta af nýrri menntaelítu, með áhuga
á myndlist jafnt sem bókmenntum. Alexander Jóhannesson sýnir yfirburði
sína með því að verja gildi táknsæis höggmyndanna og útskýra fyrir þeim
sem eru minna upplýstir að „ný menningarskilyrði krefjist nýrra hugsjóna
í listum“.32 Orð hans gefa til kynna að hér sé á ferðinni nýjung í íslensku
listalífi sem ástæða sé til að verja. Alexander lætur þannig í ljós vilja til að
staðsetja verk Einars Jónssonar innan íslenskrar menningar og um leið
sjálfan sig í hópi þeirra sem búa yfir þekkingu til að fjalla um þau.33
Fráhvarf hins eðlilega er ógn við framfarir í listum
Það er í framhaldi af þessum skrifum sem Alexander hefur máls á því
opin berlega árið 1920, að nýjar listastefnur geti reynst íslenskri menningu
skeinuhættar. Stefnurnar sem hann hefur áhyggjur af heita „fáránlegum
nöfnum“,34 s.s. kúbismi, fútúrismi, dadaismi og expressjónismi, en nafn
síðastnefndu stefnunnar er jafnframt notað sem samheiti yfir þær allar.
Rökin fyrir því eru svipuð einkenni, sem best er lýst sem vanskapnaði og
afmyndun náttúrulegra forma. Alexander tekur málverk eftir Picasso og
Picabia sem dæmi, en nefnir einnig grafíkmynd eftir Schmidt-Rottluff.35
Hann ræðst gegn verkunum með offorsi í upphafi greinarinnar sem vekur
furðu þegar haft er í huga að hann hefur líklega ekki haft tækifæri til að sjá
þau með eigin augum. Engu að síður lýsir hann afmyndun Krists í verki
Schmidt-Rottluff og vansköpuðum kvenlíkömum í málverkum kúbist-
31 Sama heimild, bls. 64.
32 Alexander Jóhannesson, „Síðustu listaverk Einars Jónssonar“, bls.1.
33 Alexander virðist hafa haft sérstakt dálæti á höggmyndalist með rætur í klassískri
hefð, eins og fram kemur í skrifum hans um Nínu Sæmundsson. Sjá Alexander
Jóhannesson, „Íslenzkir listamenn – Nína Sæmundsson“, Iðunn: nýr flokkur 3/1920,
bls. 230–237.
34 Alexander Jóhannesson, „Nýjar listastefnur“, bls. 41.
35 Með greininni fylgja svarthvítar eftirprentanir af verkunum.