Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 159
159
við áherslur í fræðilegri umræðu um sjónmenningu þar sem bent er á að
myndlæsi sé hæfileiki byggður á reynslu og þjálfun.25
Frankenstein-hugmyndafræðin og múmíuáráttan
Hugmyndir um vísinn eiga sér langa sögu í menningunni og má rekja
vangaveltur um hann til umræðu í vestrænni heimspekihefð um ímyndir
og veruleika og allar götur fram til póstmódernískrar gagnrýni á ímynda-
samfélagið. Það er hins vegar innan kvikmyndafræðanna og þeirrar
menningarumræðu sem spratt fram við tilkomu kvikmyndamiðilsins sem
vísirinn varð mikilsverður hluti af umræðu um varðveislu, minni og for-
gengileika.26 Er þar einkum um að ræða tvö aðskilin tímaskeið í sögu
kvikmyndarinnar og kvikmyndafræðilegrar orðræðu. Annars vegar eru það
raunsæis- og fyrirbærafræðilegu kenningarnar sem fram komu um kvik-
myndamiðilinn í Frakklandi eftir seinna stríð og tengjast hinu sögufræga
tímariti Cahiers du Cinéma og fyrsta ritstjóra þess og meðstofnanda, André
Bazin, nánum böndum en þar var vísirinn ræddur í samhengi við það sem
Bazin kallar „múmíuáráttuna“.27 Hins vegar er það orðræðan sem spratt
upp í kringum miðilinn um það leyti sem hann kom fram, um og upp úr
aldamótunum 1900, og laut að áður óþekktum möguleikum hans til að
varðveita „fullkomna“ eftirmynd atburða eins og þeim vindur fram í tíma.28
Bollaleggingar um varðveisluhæfileika miðilsins gengu svo langt að snúast
um það að kvikmyndin gæti í krafti vísisins yfirstigið mörk lífs og dauða.29
Í Kvikir verði skuggarnir/Life to Tbose Shadows (1981) fjallar Noël Burch
um þessa umræðuhefð og vísar m.a. til blaðaskrifa í París í desember 1895
í kjölfar fyrstu nútímalegu kvikmyndasýningarinnar, sem haldin var á
vegum Lumière-bræðra. Eftirfarandi lýsing birtist í blaðinu Le Radical:
25 Úlfhildur Dagsdóttir, „Það gefur auga leið“, bls. 51–60.
26 Þarna gengur umræðan um kvikmyndina að nokkru leyti inn í orðræðu sem þegar
hafði skapast um ljósmyndina.
27 André Bazin, „The Ontology of the Photographic Image“, bls. 12–15.
28 Eftirmyndin er að sjálfsögðu ekki fullkomin og er misræmið milli eftirlíkingar hinn-
ar kvikmyndalegu ímyndar og veruleikans t.d. útgangspunktur Rudolfs Arnheim
í verkinu Film as Art, Berkeley, Los Angeles og London: University of California
Press, 2006 [1957], en rit þetta er væntanlegt í íslenskri þýðingu Björns ægis Norð-
fjörð sem Um kvikmyndalistina, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2013.
29 Um það hvernig hugmyndir um nútímatækni hafa um tæplega tveggja alda skeið
átt samleið með trú á hið yfirnáttúrulega, og að ný tækni feli gjarnan í sér einhvers
konar röskun á grundvallarlögmálum tilverunnar, sjá Jeffrey Sconce, Haunted
Media. Electronic Presence from Telegraphy to Television, Durham og London: Duke
University Press, 2000.
SöGUR ÚR VAXMYNDASAFNINU