Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 26
26
mati eitt mesta stórvirki nútímabókmennta má jafnframt segja að verkið
opinberi rækilega þá frásagnarkreppu sem víða búi í módernismanum,
þótt yfirleitt verði hún ekki svona djúp. Tékkneski höfundurinn Ivan
Klíma segir í ritgerð sinni „Hefð okkar og takmarkanir vaxtarins“ að í bók-
menntum og listum hafi þegar verið farið út á ystu nöf nýsköpunar; Joyce
og Beckett hafi fært frumleikann að sjálfum mörkum óskiljanleikans og
lengra verði ekki farið í bókmenntalegum leiðangri.33
Það er ekki erfitt að skilja þetta sjónarhorn, en í reynd verða landamörk
óskiljanleikans ekki dregin með svo skýrum hætti og saga módernismans
er ekki bein braut að slíkum mörkum. Svipaða athugasemd má gera við
spurningar um það hvort módernisminn hljóti ekki sjálfur að vera orðinn
að hefð – sum tilraunaverk framúrstefnuhöfunda séu orðin hundrað ára
gömul. öðrum þræði svarar maður þessu játandi; þau verk Joyce, Eliots,
Becketts og fleiri módernista, sem hafa verið linnulaust til umræðu í hópi
fræðimanna áratugum saman, eru í þeirra ranni þekkt viðfangsefni úr hefð-
arveldi bókmenntanna. Á hinn bóginn má um það efast, að minnsta kosti á
sviði ritlistar, að módernisminn hafi orðið hefð í hefðbundnum skilningi.
Hvort sem íhaldssemi tungumálsins er um að kenna eða hinum styrka
meginstraumi frásagnarhefða allt til okkar daga, er ljóst að róttækur mód-
ernismi hefur haldið framandleika sínum á almennum vettvangi. Hann
hefur ekki orðið að viðteknu viðmiði í „framsetningu veruleikans“, og
það skýrir sögulegan teygjanleika módernismahugtaksins til okkar tíma.
Þetta þýðir ekki að nýir höfundar geti skrifað eldri verk módernismans
upp á nýtt, en hin annarlega „hefð módernismans“ leiðir betur en ella
í ljós margbreytileika – og þar með möguleika nýsköpunar – í skapandi
skrifum. Þetta er grundvallaratriði þegar gerð er grein fyrir stöðu höf-
unda sem fara gegn meginstraumi, hvort sem það er Guðbergur Bergsson
í Tómasi Jónssyni. Metsölubók árið 1966 eða Tom McCarthy í C árið 2010.
Báðir sækja sér eitt og annað í forðabúr eldri módernisma og nýta sér með
eigin hætti í róttækum og ögrandi verkum, þótt vitaskuld geti C ekki tal-
ist jafnmikið tímamótaverk innan enskumælandi módernisma og Tómas
Jónsson. Metsölubók var í íslensku samfélagi á sínum tíma. Módernismi á
í sérstökum samræðum við málsamfélagið hverju sinni, allt eftir stað og
tíma, auk einkenna verkanna. Þetta er stórt atriði í sögu módernismans, ef
við reynum að átta okkur á honum sem alþjóðlegu fyrirbæri.
33 Ivan Klíma, „Our Tradition and the Limits of Growth“, The Spirit of Prague and
Other Essays, Paul Wilson þýddi úr tékknesku á ensku, London: Granta Books,
1994, bls. 146–153, hér bls. 149–150.
ÁstRÁðuR EystEinsson