Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 95
95
á litum sem hafi sjálfstætt líf í stað þess að tengjast manneskjunni. Slíkt
misræmi samræmist illa hugmyndum hans sjálfs um rómantískan natúral-
isma og sígilt jafnvægi. Alexander telur engu að síður að Jóni Stefánssyni
sé ekki alls varnað, þar sem hann hafi gert sér grein fyrir að það nægir ekki
sönnum listamanni að herma eftir náttúrunni. Eftirmynd sem er of trú
fyrir myndinni er með öðrum orðum ófær um að tjá tilfinningar, og því á
listamaðurinn ekki að sækjast eftir ljósmyndalegu raunsæi heldur jafnvægi
milli hlutlausrar athugunar og eigin hughrifa.
Það er ekki að ástæðulausu sem Alexander Jóhannesson tekur verk Jóns
Stefánssonar sérstaklega fyrir. Listamaðurinn hafði kynnst norrænum lista-
mönnum sem stunduðu nám utan Konunglegu dönsku akademíunnar, hafði
farið með þeim til Parísar í skóla Matisse, umgengist forsvarsmenn Klingen
og tekið þátt í Haustsýningunni árið 1919.60 Munúðin sem Alexander
kemur auga á í málverkum Jóns og skilgreinir sem hættulega má rekja til
áhrifa frá fávisma Matisse sem var talinn ein af stefnum expressjónism-
ans. Skipti þá engu þótt áhrif franska listamannsins hafi ekki verið sérlega
áberandi í verkum hans. Sterkir litir og fjarlægð eru hins vegar augljós
merki um sjálfhverfu, að mati Alexanders, og staðfesta skyldleika verkanna
við expressjónismann. Greiningin er að því marki rétt, að Jón Stefánsson
er ekki impressjónískur málari heldur greinandi. Áhugi hans beinist að
rými myndarinnar og hvernig raða megi formum á myndflötinn, en ekki
næmri túlkun sjónrænnar skynjunar á náttúrunni. Ekkert bendir til þess að
verkum Jóns Stefánssonar hafi verið komið til varnar á prenti, en rúmum
áratug síðar minnist Jón Þorleifsson á „misskilning“ sem upp hafi komið
varðandi verk nafna síns Stefánssonar þegar hann sýndi fyrst á Íslandi.61
Hann minnist þó hvergi á Alexander Jóhannesson heldur gefur í skyn að
hér hafi verið á ferð almenn viðhorf. Nær lagi er þó að ætla að rangtúlk-
unina, sem Jón Þorleifsson talar um, megi rekja til fyrirlestra Alexanders
sem áttu að upplýsa áhugamenn og meðlimi Listvinafélagsins. Júlíana
Gottskálksdóttir hefur bent á að Alexander Jóhannesson og Guðmundur
Finnbogason hafi, ásamt fleiri fræðimönnum, verið áberandi í félaginu,
sem var stofnað með það í huga að fræða félagsmenn „um hinar fögru list-
ir“.62 Alexander og Guðmundur eru báðir talsmenn hugsjónastefnu sem
leggur áherslu á samræmi og telja báðir, í anda rómantíkurinnar, að listin
60 Hubert van den Berg, „Jón Stefánsson og Finnur Jónsson“, bls. 64–66.
61 Jón Þorleifsson, „Íslensk málaralist 30 ára“, Listviðir 2/1932, bls. 11–14, hér bls.
13.
62 Júlíana Gottskálksdóttir, „Tilraunin ótímabæra“, bls. 76.
VIðTöKUR EXPRESSJÓNÍSKRA MÁLVERKA FINNS JÓNSSONAR