Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 20
20
vissu marki, þótt Adorno hafi aðra og gagnrýnni afstöðu til þeirra hefða
og þeirrar tjáningar sem þrifist hefur innan vébanda upplýsingarinnar og
hins rökvædda samfélags á Vesturlöndum. ég er sammála Adorno um að
róttækni módernismans felist meðal annars í broddi, neikvæði, sem bein-
ist gegn allri hefð. Í þeim broddi búa að mínu mati bæði verðleikar og
einstrengingsháttur módernismans. Broddurinn snýst gegn valdboðum,
stöðnuðum venjum í hegðun, tjáningu og hugsun, og hverskonar rétttrún-
aði. Á hinn bóginn er engin ástæða til að taka neikvæða afstöðu til allra
hefða og jafnframt er hætta á að hefðir séu vanmetnar: að maður gleymi
hæfni þeirra til að þróast og aðlagast, meðal annars með því að læra af
mótstöðuafli sínu.25
Í merkum ritgerðum á þriðja áratug síðustu aldar sótti Virginia Woolf
hart að virtum skáldsagnahöfundum, Arnold Bennett og H.G. Wells.
ögrandi skrif hennar eru til vitnis um að hún var ekki sjálf meðal „ráð-
andi“ höfunda þess tíma (eins og sumum finnst í endurliti) heldur beindi
hún broddi sínum „utan frá“ að miðlægum hefðarviðhorfum og raunsæis-
aðferðum sem hún kenndi við rústir og dauða.26 Þetta minnir á yfirlýs-
ingar sumra framúrstefnuhópa um nauðsyn byltingar í listsköpun. Kannski
er þess ekki að vænta að þeir sem beita sér fyrir nýju svigrúmi til sköpunar
velti fyrir sér seiglu og aðlögunarhæfni hefða. „Í listum liggur engin leið til
baka“ er ein eftirminnilegasta yfirlýsing úr baráttu nýlista á Íslandi; þetta
er greinarheiti atómskáldsins Einars Braga í fyrsta hefti nýja Birtings 1955,
en með því riti var leitast við að skapa módernismanum rými og vettvang á
Íslandi.27 Hægt er að samþykkja að andlaus endurtekning eldri tjáningar sé
ekki vænleg leið í listsköpun, en á hinn bóginn má segja að það liggi ýmsar
leiðir til baka þótt stefnt sé fram á við. Raunsæishefðin í sagnalist hefur
fundið ýmsar leiðir til að endurnýja sig og margar þeirra hafa legið um
liðna tíð. Þetta má glöggt sjá á því hvernig Halldór Laxness endurnýjaði
Í bók minni The Concept of Modernism er túlkun Adornos á módernismanum nokkuð
til umræðu, t.d. á bls. 39–45 en einnig víðar.
25 Hér er því ekki gleymt að þótt módernistar hafi snúist gegn sjálfvirkni og vanagangi
hefða, þá hafa margir þeirra vissulega átt í miklum samræðum við hefðir í verkum
sínum og skeytt þeim markvisst inn í nýtt samhengi, eins og oft hefur verið bent á
í fræðilegri umfjöllun um verk Joyce, Pounds, Eliots og fleiri módernista.
26 Virginia Woolf, „Mr. Bennett and Mrs. Brown“, Collected Essays 1, London: Hog-
arth Press, 1966, bls. 319–337, sjá bls. 330. Sbr. einnig grein hennar „Modern
Fiction“, Collected Essays 2, London: Hogarth Press, 1972, bls. 103–110.
27 Einar Bragi, „Í listum liggur engin leið til baka“, Birtingur 1/1955, bls. 25–27, hér
bls. 25.
ÁstRÁðuR EystEinsson