Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 23
23
saga sem sé með bæði „hámódernismann“ og meginlandsheimspeki í far-
teskinu. Honum þykir hressandi að sjónarmið McCarthys skuli fara í bága
við bókmenntakúltúr samtímans, sem Tayler segir mjög fráhverfan mód-
ernisma („stubbornly non-modernistic“). Sjálfur virðist Tayler raunar tala
út úr þeim kúltúr þegar hann segir hættu á að skáldsaga höfundar sem sé
í þessum vitsmunalega félagsskap verði tilgerðarleg og ekki sé alveg laust
við að sú sé raunin með C.31 Sama ár, hinumegin Atlantshafsins, kom út
skáldsagan Freedom eftir Jonathan Franzen, fimmtugan bandarískan höf-
und sem á skömmum tíma hafði öðlast mikla viðurkenningu og komst
meira að segja um svipað leyti á forsíðu tímaritsins Time (mynd og nafni
fylgdu þar gamalkunn og fleyg orð: „Great American Novelist“). Franzen
hefur ekki farið dult með að hann sé andsnúinn tilraunaskrifum og mód-
ernisma, og það er athyglisvert að hinum ágætu raunsæisskáldsögum hans
er gjarnan líkt við verk Dickens og Tolstojs, rétt eins og ekkert sé lengra
frá tilgerð en félagsskapur þeirra gömlu höfðingja á 21. öld.
Getur sagnagerð okkar tíma vaxið beint fram af raunsæishefð 19. aldar,
líkt og aldrei hafi orðið nein módernísk truflun á þeirri vegferð? Vitaskuld
mótast raunsæi Franzens af þeim bandaríska samtíma sem hann fjallar
um, en það hvílir samt á hinum hefðbundnu undirstöðum sem hafa kom-
ist gegnum ólgutíma í (bókmennta)sögunni og búa enn yfir burðarþoli.
En það er athyglisvert að líta í þessu samhengi á aðra nýlega bandaríska
skáldsögu þar sem höfundur hefur einnig traust tök á raunsæislegri orð-
ræðu en stefnir henni til sérstæðs fundar við módernismann. Skáldsagan
The Road (Vegurinn) eftir Cormac McCarthy birtist árið 2006 en kom út
í íslenskri þýðingu Rúnars Helga Vignissonar 2010. Þegar hin módern-
íska frásagnarkreppa reynist frjó er það meðal annars vegna sköpunariðju
lesandans í vissu tómarúmi milli hins „truflaða“ texta og „raunsæislegs“
veruleika sem hann telur að búi sem einskonar undirtexti í verkinu. Það er
áskorun að ferðast í gegnum Ulysses eftir Joyce, en að þeirri ferð lokinni á
lesandinn óvenjumikinn þátt í þeirri Dyflinnarborg og því mannlífi sem á
vegi hans hefur orðið. Í Veginum eftir McCormac er þessu um sumt öfugt
farið. Hér er baksvið sagnaheimsins, með hinum ýmsu nútímaforsendum
sínum, ýmist horfið eða í rúst; jafnvel minningar ná ekki að endurvekja
það. Í verki McCormacs hefur þetta sérlega sterk áhrif, því að það sem er
31 Christopher Tayler: ritdómur um C eftir Tom McCarthy, The Guardian, 31. júlí
2010. Sjá: http://www.guardian.co.uk/books/2010/jul/31/c-tom-maccarthy-novel-
review [sótt 6. júní 2013].
FRÁSAGNARKREPPUR MÓDERNISMANS