Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 181
181
að hinn hefðbundni listi meginlands Evrópu með einstaka engilsaxneskum
útvörðum.13 Á listann láðist að setja módernismann í Sjanghai eða São
Paolo á þriðja áratugnum, Buenos Aires þar sem Borges var, Karíbahafið
þar sem Aimé Césaire starfaði og Mexíkó þar sem Frida Kahlo, Diego
Rivera og Alfaro Siqueiros unnu að sinni listsköpun. Listinn sýnir held-
ur ekki hvernig menning heimsborganna var þýdd, yfirtekin (e. appropri-
ated) og stæld í nýlendum og fyrrum nýlendum Asíu, Afríku og Rómönsku
Ameríku. Módernisminn braut sér leið inn í menningu heimsveldanna
og eftirheimsveldanna, og sömuleiðis nýlendnanna og eftirlendnanna,
með forvitnilegum hætti. Kynni listamanna nýlendnanna af módernísk-
um menntamönnum heimsborganna kyntu oft undir frelsisþrá og sjálf-
stæðisbaráttu. Kynni evrópskra listamanna af lífinu í nýlendunum ólu svo
enn frekar á andúð þeirra á hefðum viðtekinnar borgaralegrar menningar.
Slíkir landfræðilegir þættir í umfjöllun um módernisma hafa sprottið fram
á sjónarsviðið með eftirlendufræðunum og endurnýjuðum áhuga á tilurð-
arsögu menningarlegrar hnattvæðingar.
Ákveðnir tímarammar móta einnig hið landfræðilega sjónarhorn.
Samkvæmt hefðbundnum skilgreiningum hófst alþjóðlegur módernismi
í listum um miðja nítjándu öld og varaði til miðrar næstu aldar, en innan
þess ramma eru þýðingarmikil frávik í tíma og rúmi. Menning þjóða á
meginlandi Evrópu þróast mishratt (franskur módernismi er fyrr á ferð-
inni en sá þýski til dæmis) og hið sama á við um listgreinarnar sjálfar
(málverkið og skáldsagan eru fyrst í Frakklandi, tónlist og heimspeki í
Þýskalandi og arkitektúr síðastur alls staðar). Þessa ójöfnu þróun, svo vitn-
að sé til Marx, má rekja jafnt til eðlis þjóðlegra hefða í hverju landi og
stöðu og þróunar þéttbýlismyndunar og iðnvæðingar í löndunum. Samt
sem áður hefur tímabilið frá síðari hluta nítjándu aldar til fjórða áratug-
ar tuttugustu aldar ákveðinn samnefnara samanborið við árin eftir seinni
heimsstyrjöld. Ýmsir fræðimenn, meðal annarra Fredric Jameson og Perry
Anderson, hafa bent á það mikilvæga atriði að uppgangur módernism-
ans í Rússlandi, Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu grundvallaðist á gamla
stjórnskipulaginu sem þar var við lýði, með gamalgrónum menntuðum
yfirstéttum, formfastri skólastefnu og tilkomu nýrrar tækni á borð við ljós-
myndun, kvikmyndagerð og útvarp.14 Enn fremur voru mikil tengsl á milli
13 Sjá Malcolm Bradbury og James McFarlane (ritstj.), Modernism. A Guide to European
Literature 1890–1930, London: Penguin Books, 1976.
14 Í frumtexta eru notuð frönsku orðin ‚ancien régime‘ um það sem hér er kallað ‚gamla
stjórnskipulagið‘. [Athugas. þýð.]
LANDFRæðI MÓDERNISMANS Í HNATTRæNUM HEIMI