Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 167
167
yfir sér ákveðinn fortíðarkenndan ævintýrablæ, en það er staðsett í staðleys-
ukenndu rými fjallasmábæjar. Hin bjagaða expressjóníska sviðsmynd sýnir
okkur farandtívólí sem komið er til bæjarins með sýningartjöldum, líru-
kössum og hringekjum. Þar er sem sagt um að ræða hefðbundinn farand-
skemmtimarkað sem hefur yfir sér yfirbragð karnivals. Skemmtigarðurinn
í Vaxmyndasýningunni er hins vegar af öðrum toga. Þar er um að ræða hinn
sögufræga garð Luna Park í útjaðri Berlínar, nútímalegan skemmtigarð
með raflýstum tívolítækjum á fleygiferð og umfangsmiklum sýningartjöld-
um. Grunnsögusviðið vísar þannig til þess forms skemmtigarðsins sem
kom fram með nútímaafþreyingarmenningu, þ.e. staðbundið skemmt-
anasvæði sem byggir aðdráttarafl sitt á voldugum rafknúnum tívolítækjum
sem bjóða upp á tímabundna lausn frá lögmálum þyngdaraflsins, hreyfi-
og skynsviði mannslíkamans, með því að þeyta fólki á miklum hraða,
aftur á bak og áfram, í ólíkar áttir og hæðir.48 Í eldri formum af nútíma-
skemmtigörðum var einnig, eins og Anne Friedberg hefur m.a. bent á, að
finna sýningar sem buðu upp á óvænta skynreynslu af öðrum toga, með
speglasölum og hvers kyns myndasýningum á borð við panórama-sýningar
sem líktu eftir þrívíddarskynjun á umhverfinu.49 Skemmtigarðurinn vísar
þannig til hins söluvædda áhorfs og þeirrar tæknilega umbreyttu skyn-
reynslu sem Benjamin gerði að umtalsefni á fjórða áratugnum. Þá vísar
umgjörðin í sviðsetningu til kvikmyndaáhorfsins sjálfs, en í árdaga tækn-
innar voru kvikmyndasýningarnar gjarnan haldnar í sýningartjöldum í
skemmtigörðum og fjölleikahúsum.50
Mikilvægt er þó að hafa í huga að sviðsmyndarsköpunin í rammafrá-
sögn Vaxmyndasýningarinnar er skýrt aðgreind frá þeim expressjóníska stíl
sem ræður ríkjum í sögunum þremur sem sagðar eru. Skemmtigarðurinn
í rammafrásögninni er samsettur með raunsæislegri myndatöku sem sam-
anstendur m.a. af kvikmynduðum hringekjum og parísarhjóli á ferð, ásamt
sýningarbásum og tjöldum. Leikstjórinn vinnur síðan á tilraunakenndan
hátt með myndsviðið með tæknilegri eftirvinnnslu, þar sem skörunum er
48 Hér er mikilvægt að hafa í huga að raftæki, raflýsingar og tækjavæddir skemmti-
garðar eru mikilvægar táknmyndir nútímans, sjá í þessu samhengi Andreas Killen,
Berlin Electropolis. Shock, Nerves and German Modernity, Berkeley og New York:
University of California Press, 2006.
49 Anne Friedberg, Window Shopping, bls. 20–29.
50 Thomas Elsaesser ræðir einnig hvernig Vaxmyndasýningin skírskotar til árbíósins
(e. early cinema) en gerir það þó einkum í samhengi við frásagnarhlutana þrjá, sem
hann telur að minni á eldri sýningarhefð stuttmynda. Sjá Elsaesser, Weimar Cinema
and After, bls. 84–87.
SöGUR ÚR VAXMYNDASAFNINU