Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 42
42
[...] Ef hugurinn reikar eitt andartak missirðu jafnframt tökin á að
greina á milli raunverulegra hluta og kvikra svipa þeirra.1
Í lýsingunni, sem kallast með athyglisverðum hætti á við nýjan tæknimiðil
kvikmyndarinnar, blasir við iðandi borgarmynd þar sem mörkin á milli
sýndar og raunheims eru á reiki og hugveran reynir að ná áttum, umlukin
framandi sýnum og tálsýnum. Við erum stödd í einskonar kvikum spegla-
sal nútímans: svipir birtast og hverfa, ekkert er sem sýnist, allt er á iði og
rennur hjá. Sérstaka athygli vekur þó ályktun höfundarins í þessum texta,
sem birtist í rússneska dulspekitímaritinu Rebus undir heitinu „Bréf um
segulmagn dýra“: „Eiginleikar þeirrar margföldu speglunar sem nútíma-
borgin býður okkur hafa umbreytt henni í náttúrulegan miðil reimleika“.2
Ályktun Pogorelskijs og samhengið sem hún er sett fram í líkt og varp-
ar okkur inn í aðra heimsmynd. Við erum ekki lengur stödd í nútímalegu
stórborgarumhverfi tækni, framfara og miðlunar, heldur göngum inn í
forneskjulegan vitundarheim trúarlegrar þekkingar. Borgin gegnir eins-
konar dulrænu miðilshlutverki, þar sem hún opnar gátt á milli efnisheims-
ins og handanheima og kemur um leið róti á vitund þess sem fer um þetta
rými. Heimsmyndin liggur þannig á mörkum tveggja vídda og greina má
sérkennilegan samslátt tæknilegrar og andlegrar miðlunarstarfsemi þegar
svipir úr annarri vídd fara á sveim í þeim efnisveruleika sem við þekkjum.
Lýsingu Pogorelskijs má líta á sem lýsandi dæmi um þá „mögnun tilfinn-
ingalífsins“ sem fræðimaðurinn Georg Simmel lýsti í þekktri ritgerð um
„andlegt líf“ stórborgarinnar árið 1903 og taldi „spretta af snöggum og
látlausum sviptingum ytri og innri hughrifa“.3 Slíkt sjónarhorn gagnast
1 M.V. Pogorelskij, „Письма о животном магнетизме“ („Bréf um segulmagn
dýra“), Ребус 20/1899, bls. 183–184. Hér hefur verið stuðst við enska þýðingu Júrijs
Tsivian á tilvitnuninni, sem er sótt í grein Toms Gunning, „To Scan a Ghost. The
Ontology of Mediated Vision“, Grey Room 26/2007, bls. 95–127, hér bls. 114.
2 Vitnað eftir Gunning, „To Scan a Ghost“, bls. 114. Eins og titillinn á grein
Pogorelskijs dregur fram er hér fengist við dulrænar hugmyndir um segulmagn
dýra sem breiddust út á átjándu öld og voru enn fyrirferðarmiklar í evrópskri dul-
speki um aldamótin 1900. Um hefð og sögu slíkra hugmynda, tengsl þeirra við
vísindahyggju og dulspekilega hefð, sjá ágæta yfirlitsgrein Bertrands Méheust,
„Animal Magnetism / Mesmerism“, Dictionary of Gnosis and Western Esotericism,
ritstj. Wouter J. Hanegraaff, Leiden, Boston: Brill, 2006, bls. 75–82.
3 Georg Simmel, „Die Großstädte und das Geistesleben“, Aufsätze und Abhandlungen
1901–1908, 1. bindi, ritstj. Otthein Rammstedt, Frankfurt am Main: Suhrkamp,
1995, bls. 116–131, hér bls. 116.
BEnEdikt HjaRtaRson