Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 107
107
Ritið 2/2013, bls. 107–125
Forleikur
Þórður Sigtryggsson (1890–1965) skildi eftir sig drög að handriti þegar
hann lést sjötíu og fimm ára að aldri. Þórður hafði unnið handritið með
hjálp rithöfundarins og góðvinar síns Elíasar Mar sem fullvann það svo að
honum látnum.1 Handritið, sem ber heitið Mennt er máttur. Tilraunir með
dramb og hroka, er vægast sagt sérkennileg smíð. Það er flókið, brotakennt
og óhefðbundið að flestu leyti. Við fyrstu sýn virðist það vera lítið annað
en langdreginn, endurtekningarsamur og á stundum marklítill reiðilestur
Þórðar Sigtryggssonar yfir íslensku þjóðfélagi. En þegar betur er að gáð
kemur í ljós frjó og opin samsteypa ólíkra texta: sérlundaðar hugleiðingar
og lygilegar endurminningar, harðorð sendibréf til nafnkunnra manna,
hversdagslegt slúður og bíræfnar tilraunir til hneykslunar, tilvistarlegar og
pólitískar hugsjónir, stóryrtar kynlífslýsingar og hómóerótískar fantasíur,
svo eitthvað sé nefnt. Textarnir falla að því er virðist tilviljanakennt og án
nokkurs samhengis hver að öðrum. Þrátt fyrir samhengisleysið og óreið-
una hlýtur lesandi engu að síður að nema meginþemu verksins og heildar-
hugsun: afdráttarlausa þjóðfélags- og menningarádeilu annars vegar og
róttæka fagurfræðilega tilvistarstefnu hins vegar.
1 Handritið var lengi vel sveipað aðlaðandi dulúð, eða allt þar til Hjálmar Sveinsson
gaf það út undir merkjum úgáfufélagsins Omdúrman undir lok „jólabókaflóðsins“
2011. Þórður Sigtryggsson, Mennt er máttur. Tilraunir með dramb og hroka: kaflar
úr endurminningum, Hjálmar Sveinsson ritaði eftirmála, Reykjavík: Omdúrman,
2011, bls. 2–3. Tímarit Máls og menningar gaf þó út nokkur (saklaus) brot úr verk-
inu árið 1973. Þórður Sigtryggsson, „Mennt er máttur. Tilraunir með dramb og
hroka“, Tímarit Máls og menningar, 2/1973, bls. 144–152.
svavar steinarr guðmundsson
Bræðrabylta
Af karlfauskunum Þórði Sigtryggssyni
og Tómasi Jónssyni