Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 139
139
geymt minningar, heldur getum við geymt rými í minninu og þegar rými
birtist okkur hefur það sömu áhrif og magdalenukaka Prousts: fortíðin
endurfæðist í huga okkar.
Sigurður setur fram sína eigin kenningu og myndlíkingu um minnið.
Hann skýrir og kannar hvernig atburðir, hugmyndir, fyrirbæri úr fortíð
mynda sérstakar tengingar sem ómögulegar væru án upprifjunar, endur-
minninga. Hann er kallaður Siggi, hann les úr Völsungasögu og Snorra-
Eddu fyrir móður sína, og sér þar að þriðji sonur Óðins hét Sigi og „„þeir
langfeðr réðu þar fyrir, er nú er kallat Frakland, ok er þaðan sú ætt komin,
er kölluð er Völsungar“ [...] Siggi og Frakkland. Þetta lítur út eins og
spásögn“ (Bernskubók, 166). Þessar tengingar sem finnast í fortíð, minni,
bókmenntum, ævi, skýrir Sigurður með þessum hætti: „Þannig tengjast
hlutir í minninu, aftengjast, lenda í undirstraumum og hverfa, koma aftur
uppá yfirborðið. Mynda hringrásir, samt oftar spíral“ (Bernskubók, bls.
167). Í sínum kenningum um minnið lagði Marcel Proust áherslu á hlut-
verk skynfæranna og oftar en ekki lýsir Sigurður ákveðnum skynhrifum og
lætur þá reyna á „minnishæfni skilningarvitanna“ (Bernskubók, bls. 20). En
þótt það geti gerst með þeim hætti sem Proust lýsir, í ósjálfráða minninu
(memoire involontaire),12 þá þurfa þau einnig þjálfun, „tilfinningaminnið
og minni skilningarvitanna þjálfaðist smátt og smátt, lærði sínar lexíur
saman“ (Bernskubók, bls. 75).
Í þessum tveimur hugmyndum, þ.e.a.s. líkingunni um minnið sem
spíral og hugmyndinni um þjálfun tilfinningaminnis og minnis skilningar-
vita sjáum við aftur lykilhugmynd í þessum verkum Sigurðar sem nefnd
var hér að ofan, þ.e. endursköpunina; hvernig minningar þróast og breyt-
ast með sjálfi í mótun. Og á einum stað í Bernskubók segir um ljósmynd af
honum, að hann muni alls ekki hvenær hún var tekin en muni bara eftir að
hafa skoðað hana ótal oft: „ég var til þá, furðulegt til þess að hugsa að ég
man það ekki, man bara minningar um minningar. Þannig erum við alla
ævi að endurskapa líf okkar“ (Bernskubók, bls. 33). Í huga okkar á sér stað
stöðug endursköpun því „við erum verk í vinnslu“ (bls. 37).
Í þessum hugmyndum takast á mótsagnakennd sjónarhorn, þ.e. að við
vöknum ávallt ný en erum engu að síður búin til úr minningum úr for-
tíð. Þá er einmitt gott að hafa í huga spíralmyndina eða hugmyndina um
endursköpun minninganna:
12 Marcel Proust, Í leit að glötuðum tíma: Leiðin til Swann, þýð. Pétur Gunnarsson,
Reykjavík: Bjartur, 1997. Sjá til dæmis bls. 58–62.
„MINNIð ER ALLTAF Að STöRFUM“