Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 179
179
Þetta þýðir til dæmis að sá módernismi sem mótaðist annars vegar hjá
skáldum fimmta áratugarins (s. fyrtiotalisterna) í Svíþjóð og hins vegar hjá
íslensku atómskáldunum á sjötta áratugnum verður hluti af hinum alþjóðlega
eða öllu heldur landfræðilega módernisma og sem slíkur alveg jafn áhugaverð-
ur og mikilvægur og sá sem kom fram í áðurnefndum háborgum menningar-
innar nokkru fyrr á öldinni. En þetta þýðir líka að taka verður tillit til þess að
nútíminn er ekki alls staðar eins – meðal annars vegna þess að hann ber ekki
alls staðar að garði á sama tíma – og viðbrögðin við honum eru ekki alltaf og
hvarvetna hin sömu. Hvert svæði býr meðal annars yfir sínu stjórnmálakerfi
og valdakerfi sem getur skýrt hvernig menningarlegu forræði er þar háttað. Í
Svíþjóð var módernisminn til að mynda innlimaður í menningarstofnunina
sem þar var fyrir án mikilla átaka. Stofnun nútímalistasafnsins í Stokkhólmi,
Moderna Museet, árið 1958 var hluti af nánast hnökralausri innlimun mód-
ernismans í sænska liststofnun. Á Íslandi mætti módernisminn aftur á móti
harðri andstöðu hjá liststofnuninni og bókmenntastofnuninni. Væri módern-
ismi þessara tveggja landa borinn saman frekar myndu fleiri sérkenni koma í
ljós, svo sem áhrif sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á þróun og viðhorf til lista og
bókmennta fyrir og um miðja tuttugustu öld.
Hin landfræðilega nálgun við módernismann hefur leitt af sér talsverða
endurskoðun. Á síðustu árum og áratugum hafa til að mynda verið sett fram
ýmis hugtök um það sem mætti kalla nýja módernisma eða framhaldslíf mód-
ernismans, en hann virtist um nokkurt skeið jafnvel heyra sögunni til. Hugtakið
‚póstmódernismi‘ (e. postmodernism) – sem merkir ‚eftir módernisma‘ – gaf
endalokin sterkt til kynna en benti jafnframt til þess að verkefni módern-
ismans væri haldið áfram í einhverri mynd.8 Í því sambandi hefur sömuleið-
is verið talað um mögulega eða aðra módernisma, samanber hugtak Dilips
Paramedhswars Gaonkar um aðra nútíma í ritinu Alternative Modernities.9
Enn fremur hefur hugtakið ‚blendingsmódernismi‘ (e. hybrid modernism)
skotið upp kollinum þar sem rætt er sérstaklega um módernisma á jaðar-
svæðum.10 Svæðisbundinn módernismi (e. regional modernism) hefur einnig
8 Sjá umfjöllun um samspil módernisma og póstmódernisma hjá Ástráði Eysteinssyni,
The Concept of Modernism, Ithaca og London: Cornell University Press 1990, bls.
103–142. Ástráður segist ekki sjá neina ástæðu til þess að taka undir með þeim sem
halda því fram að módernisminn sé dauður þó að hann hafi vissulega haft hvað bylt-
ingarkenndust áhrif á árabilinu 1910 til 1935 í flestum vestrænum löndum öðrum
en Norðurlöndunum, þar sem hann hafi náð hápunkti nokkuð seinna (bls. 136).
9 Hugtakið ‚alternative medicin‘ hefur verið þýtt sem ‚óhefðbundnar lækningar‘ og
mætti nota þann möguleika í þessu tilviki einnig þótt íslenska orðið ‚óhefðbundinn‘
sé ekki merkingarlega jafngilt enska orðinu ‚alternative‘.
10 Sjá til dæmis Eleni Kefala, „Hybrid Modernisms in Greece and Argentina: The
Case of Cavafy, Borges, Kalokyris, and Kyriakidis“, Comparative Literature 2/2006,
bls. 113–127.
LANDFRæðI MÓDERNISMANS Í HNATTRæNUM HEIMI