Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 228
228
hyldjúpa gjá í Súdan milli hinna mestmegnis arabísku/múslímsku og betur
stæðu íbúa norðursins og svartra afrískra/kristinna/andatrúarmanna sem
búa við fátækt í suðrinu – en þessi gjá er við rætur þess hatramma borgara-
stríðs sem geisar í Súdan í dag.
„Nútímaleg“ hollusta móðurinnar við einstaklingsfrelsi birtist á ný og
með öðrum hætti í sögu Hosna, súdönsku þorpskonunnar sem Mustafa
kvænist þegar hann er staðráðinn í að snúa aftur til hefðbundinna lífshátta.
Samvistirnar við Mustafa breyta Hosna hinsvegar í „nútímalega“ konu
sem er ákveðin í að ráða sínum eigin örlögum og storka þannig siðvenj-
um – sem er nokkurs konar þverþjóðleg menningarleg eftirlíking. Þegar
Mustafa er talinn af skipar faðir hennar henni að giftast elsta saurlífissegg
þorpsins, manni sem ein þorpskonan lýsir sem svo að hann hafi „allan
heilann í reðurkónginum“,58 manni sem gortar af minningu um að hafa
nauðgað þrælastelpu að sunnan. Hosna neitar staðfastlega, hún gengur í
berhögg við siðareglur feðraveldisins í þorpinu með staðfestu sinni um að
ákveða eigin örlög. Í trássi við hefðina biður hún föður sinn um að leyfa
sér að giftast meginsögumanninum, manninum sem á trúnað Mustafa sem
hefur falið honum forræði sona sinna, manni sem þráir hana augljóslega
en er of „hefðbundinn“ til þess að gera neitt í því. En faðirinn giftir hana
gamla manninum engu að síður svo hann missi ekki andlitið í þorpinu.
Þegar gamli maðurinn reynir að nauðga Hosna stingur hún hann til bana
„á milli læranna“ og sviptir sig síðan lífi, sem er tvöföld synd í hefðbundnu
múslimsku þorpi.
Þetta morð tjáir með nafnhvörfum hvernig veröldin klofnar, hin hefð-
bundna miðja leysist upp, hvernig nútíminn hefur innreið sína. Um Hosna
segir ein gömul kona: „En sú bíræfna drusla! Svona eru þessar nútíma-
konur!“59 Aftur á móti bregst eldri eiginkona gamla mannsins við dauða
hans með hnussi: „Farið hefur fé betra!“ – og gefur frá sér „dillandi gleði-
óp“ eftir útför hans60 svo sú spurning vaknar hver sé hefðbundinn og hver
nútímalegur. Eins og í The God of Small Things er rof ungu „nútímalegu“
konunnar á hefðinni, í viðleitni hennar til að fylgja eftir eigin þrám, frá-
sagnarlína sem samfléttast og flækir þræði eftirlendusögunnar af valda-
sambandi norðurs/suðurs. Ennfremur birtist nútíminn sem þjóðhverfður í
sinni afrísku mynd, djúprættur í viðnámi konunnar gagnvart staðbundnum
birtingarmyndum (norður)súdansks feðraveldis.
58 Sama heimild, bls. 84.
59 Sama heimild, bls. 123.
60 Sama heimild, bls. 128.
susan stanfoRd fRiEdMan