Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 152
152
rúmast jafnvel á sama stað; til að draga fram hversu fullkomin varðveisla
hins liðna er í vitundinni leysir Freud bókstaflega upp tímahugtakið.
Tímalausa borgarmyndin sem Freud kallar fram staðsetur með yfir-
færðum hætti hugrænar einingar frá ólíkum tímabilum mannsævinnar hlið
við hlið, á sama tímalausa andartakinu og í sama rýmislausa rýminu. Auk
mikilvægis þessarar miðlægu kenningar fyrir sálgreiningarkerfi Freuds í
heild sinni, má einnig greina annars konar streng í minnisorðræðu Freuds
sem lýtur að þránni eftir varðveislu hins liðna, að æviskeið mannsins skilji
alltaf eftir sig óafmáanleg ummerki andspænis niðurrifi tímans, þó ekki sé
nema í sálarlífi hans sjálfs.
Sama hugmynd telur franski heimspekingurinn Jean Baudrillard að
liggi safninu og safnahugmyndinni til grundvallar, þessari menningar-
stofnun sem ætlað er að varðveita fortíðina og gerir það í rými þar sem
menjar ólíkra tímaskeiða finnast hlið við hlið: „innra skipulag og niðurröðun
safnsins kemur í stað tímans“ segir hann í Kerfi hlutanna/Le système des objets
(1968).6 Tímaleg samfella er rofin á safninu með niðurröðun hluta frá
ólíkum tímum í sama rýminu, ekki vegna þess að söfn séu ekki hugsanlega
skipulögð eftir tímabilum og leiði safngestinn jafnvel í gegnum safnið eftir
línulegu skipulagi sagnfræðilegrar framvindu, heldur vegna þess að tíma-
legt rof á sér ávallt stað milli einstakra hluta, stokkið er jafnvel yfir aldir á
örfáum metrum sem skilja að tvo glerskápa, og þar fyrir utan ferðast áhorf-
andinn um safnið eftir eigin höfði og getur þannig upplifað hliðstæðu við
hið tímalausa rými dulvitundarinnar sem Freud lýsir hér að framan.
Baudrillard vísar þarna til aðferðar sem maðurinn hefur komið sér upp
andspænis þeim takmörkunum sem kenning Freuds er óhjákvæmilega und-
irorpin. Það er að segja að forgengileiki hinnar líkamlegu umgjarðar hug-
rænu arkífunnar, mannsins sem slíks, myndar róttæk endimörk safnrým-
isins þar sem öll reynsla einstaklingsins er varðveitt. Það er í samhengi við
og andspænis þessum „róttæka endanleika“ dauðans sem Jacques Derrida
hefur smíðað hugtakið „safnasótt“ í samnefndri bók til að lýsa þránni til
að varðveita minningar, fortíð og reynslu umfram það sem mögulegt er
í vitundinni. Safnasóttin birtist í söfnum á borð við þau sem Baudrillard
gerir að umræðuefni en líka í þránni eftir einhverju sem varðveitir áþreif-
anlega tengingu við það sem er horfið, og gerir þar Derrida sérstaklega að
umfjöllunarefni vísinn í skilningi Charles Sanders Peirce, það er að segja
6 Jean Baudrillard, The System of Objects, þýð. James Benedict, London og New York:
Verso, 1996, bls. 95, skáletrun upprunaleg.
BjöRn ÞÓR vilHjÁlMsson