Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 124
124
ari lýsingar á honum eða vinskap þeirra.53 Hins vegar má nefna formála
Guðbergs að endurútgáfu Samastaðar í tilverunni eftir Málfríði. Þar er
sýnilegt að Guðbergi er ekki sérstaklega hlýtt til Þórðar; Þórður er ekki
einungis sagður tilgerðarlegur heldur á hann að hafa haft neikvæð áhrif
á Málfríði og sjálfstraust hennar gagnvart eigin skrifum54 – sem fer ekki
endilega saman við hlýleg skrif Málfríðar og Þórðar um hvort annað.
Vangavelturnar hér að framan um möguleg kynni Þórðar og Guðbergs
eru settar fram í fullkomnum hálfkæringi. Það er engu að síður áhugavert
til þess að hugsa hvort möguleg spenna milli Guðbergs og Þórðar sé orsök
þess að bæði Tómas Jónsson: metsölubók og sögumaður verksins, einhver
helsta andhetja íslenskrar nútímabókmenntasögu, minna á Mennt er mátt-
ur og Þórð Sigtryggsson.
ÚTDRÁTTUR
Bræðrabylta
Af karlfauskunum Þórði Sigtryggssyni og Tómasi Jónssyni
Þórður Sigtryggsson (1890–1965) skildi eftir sig drög að handriti þegar hann lést
sjötíu og fimm ára að aldri. Þórður hafði unnið handritið, sem ber heitið Mennt
er máttur: Tilraunir með dramb og hroka, með hjálp rithöfundarins og góðvinar síns
Elíasar Mar sem fullvann það svo að Þórði látnum. Mennt er máttur er öðrum þræði
pólitískt ádeilurit en Þórður deilir hart á íslenskt þjóðfélag og menningu og er það
því háð ákveðnu menningarsögulegu samhengi. Róttæk afstaða og gagnrýni Þórðar
á íslenskt þjóðfélag og menningu færir hann sumpart á stall með eftirstríðskynslóð-
inni og ’68-kynslóðinni. Verkinu svipar enn fremur til eins af lykilverkum sjöunda
áratugarins, Tómasar Jónssonar: metsölubókar eftir Guðberg Bergsson. Verkin eiga
það ekki aðeins sameiginlegt að vera stefnt gegn valdaformgerð aldamótakynslóð-
arinnar. Þau sýna einnig hvernig tveir einstaklingar af þessari sömu kynslóð bregð-
ast mismunandi við nútímasamfélagi. Líkindi verkanna eru svo greinileg að spyrja
má hvort Guðbergur hafi verið undir (beinum?) áhrifum frá Mennt er máttur þegar
hann skrifaði Tómas Jónsson: metsölubók.
Lykilorð: Þórður Sigtryggsson, Mennt er máttur. Tilraunir með dramb og hroka, Guð-
bergur Bergsson, Tómas Jónsson: metsölubók, Elías Mar, íslenskar nútímabókmenntir
53 Guðbergur Bergsson, „Í þessu herbergi hefur búið doktor“, Skírnir, haust 1990,
bls. 405–423, hér bls. 415.
54 Málfríður Einarsdóttir, Samastaður í tilverunni, endurútgáfa, Guðbergur Bergsson
ritaði formála, Reykjavík: Forlagið, 2008, bls. 6.
svavaR stEinaRR guðMundsson