Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 58
58
þannig að „efasemdir kunni að vakna hjá áhorfendum um algildi hinnar
vanabundnu skipanar hugveru og hlutveru“.46 Frá sjónarhóli eftirstríðs-
áranna kýs Richter m.ö.o. að líta á kvikmyndina sem einskonar dæmisögu
er felur í sér ákall gegn alræði og drottnunarvaldi, um leið og hann leggur
áherslu á að draga megi sögulegan lærdóm af verkinu. Enduróm þessarar
túlkunar má greina í síðari skrifum fræðimanna, þar sem m.a. hefur verið
fullyrt (vissulega með nokkuð annarri sögulegri skírskotun) að verkið fjalli
um „stjórnleysið á árunum eftir lok heimsstyrjaldarinnar fyrri og bendi til
hruns alls þess sem er sjálfgefið, hvort heldur er í stofnanalegu, pólitísku
eða þjóðfélagslegu tilliti“.47 Slíkar túlkanir frá sjónarhorni síðari tíma miða
að því að finna verkinu stað í sögulegri framvindu en um leið beina þær
athyglinni frá þeim flókna orðræðuvef sem verkið tilheyrir. Reimleikarnir
verða að pólitískri dæmisögu, vitnisburði um örlagaríka söguþróun eða
jafnvel fyrirboða um atburði í vændum. Þannig er í raun litið á reimleikana
sem allegoríska táknmynd er vísar til annars og mikilvægara samhengis –
þeir kunna að birtast okkur á hvíta tjaldinu sem reimleikar, en í raun eru
þeir aðeins útgangspunktur fyrir þá hugmyndafræðilegu gagnrýni sem er
eiginlegt inntak verksins.
Hér má greina kunnuglega leið til að skrifa þátt dulspekinnar út úr
menningarsögu nútímans. Gjarnan er bent á að dulspekilegar hugmyndir
hafi verið nokkuð útbreiddar á fyrstu áratugum tuttugustu aldar og gengist
við því að þær hafi gegnt ákveðnu hlutverki við mótun nýrra fagurfræði-
legra hugmynda á tímabilinu. Dulspekin er aftur á móti talin tilheyra ytra
menningarlegu samhengi fagurfræðinnar, sem myndar sjálfstæðan vett-
vang og lýtur eigin lögmálum. Þannig kann að vera mikilvægt að horfa til
þessa ytra samhengis í því skyni að fá gleggri mynd af sögulegu umhverfi
listaverka, en á endanum tilheyrir það ekki sjálfum merkingarheimi verk-
anna og hefur ekki áhrif á innri gerð þeirra. Á slíkum forsendum er hlut-
verk dulspekinnar jafnan smættað niður í einskonar innblástur; bent er á
að listamenn hafi vitaskuld sótt í dulspekilegar hefðir, en lykilatriðið er að
þeir vinna úr þessum þekkingarforða á sínum eigin listrænu forsendum.
Þannig hefur Partha Mitter bent á að í nýlegu en áhrifamiklu riti á sviði
listasögu, Art Since 1900, er sneitt með forvitnilegum hætti hjá tengsl-
unum á milli dulspeki og mótunarskeiðs abstraktlistar og þau afgreidd sem
46 Richter, Dada – Kunst und Antikunst, bls. 203.
47 Marion von Hofacker, „Richter’s Films and the Role of the Radical Artist, 1927–
1941“, Hans Richter. Activism, Modernism, and the Avant-garde, bls. 122–159, hér
bls. 131.
BEnEdikt HjaRtaRson