Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 113
113
þegar Tómas staðhæfir að telja megi Kimblagarr „eitt merkilegasta prump
á fornaldarbókmenntum vorum.“18
Annað gildir um Þórð Sigtryggsson í Mennt er máttur. Verkið er ekki
paródía líkt og Tómas Jónsson: metsölubók. Þórður snertir vissulega á sömu
efnum og Guðbergur með því að gagnrýna ýmis form íslenskrar bók-
menntahefðar, en reiðilestur hans nær aldrei að vera annað og meira en
flöktandi bendifingur á lofti.
Endurminningar Þórðar má engu að síður telja til samansafns æviþátta og
sagnaþátta um heldri borgara Reykjavíkur. Sagnaþættir voru ein þjóðlegasta
grein íslenskra bókmennta, enda eru þeir „að öllu leyti sprottnir úr þjóð-
legum jarðvegi, afsprengi kyrrstæðs bændasamfélags.“19 Þórður fylgir formi
þeirra í hvívetna en inntakið er af allt öðrum toga. Þó er óljóst hvort hér er
um að ræða jafn meðvitaða skopstælingu og í Tómasi Jónssyni: metsölubók.
Það verður að teljast ólíklegt þegar aðrir þættir verksins eru hafðir í huga.
Frásagnir Þórðar eru ekki af dáðum nafntogaðra einstaklinga eins og
gengur og gerist í þessari bókmenntagrein. Þær líkjast fremur skálkasög-
um (e. picaresque novel) af smáborgarasamfélagi, sem afhjúpa misjafnlega
hversdagslegt athæfi nafngreindra broddborgara, eins og framhjáhald,
afbrigðilegt kynlíf, minniháttar deilur, öfundsýki nágrannans og stétta-
átök. Einföld frásögn Þórðar af smámunasömum deilum nágrannakvenna
um kökuform lætur þannig lítið yfir sér og er nær því að vera kortlagning á
heldrimannastétt Reykjavíkur, þar til frásögnin leysist upp í goðsögulega en
klámfengna leiki guða og djöfla þar sem Jón Gerreksson Skálholtsbiskup
frá fimmtándu öld er söguhetjan. Við þessi hvörf fær sagnaþátturinn á sig
yfirbragð táknsögu en ætlun Þórðar er að sýna fram á afturhaldssemi trúar-
legs siðferðis og þar með fáránleika þess að trúa á yfirnáttúruleg fyrirbæri
annars vegar og hins vegar sjálfhverfar hugmyndir íslenskrar þjóðar um
eigið mikilvægi sem forystuþjóð meðal annarra þjóða með Skálholtsbiskup í
hásæti vestræns hugmyndakerfis.20
Sagnaþættirnir eru ekki dramatískir að gerð heldur er eins og Þórður
líti á skrif sín sem tilraun til að halda öllum fróðleik til haga. Hann leggur
þannig mikið upp úr persónuupplýsingum eins og ættartölum og félags-
legri stöðu viðkomandi til að gera frásögnina trúverðugri og krassandi.
Þórður fer ýmsar leiðir að því að setja frásagnir sínar fram sem ótvíræð-
ar heimildir, en hann staðfestir þær yfirleitt annaðhvort með setningum
18 Sama heimild, bls. 143.
19 Þorleifur Hauksson, Íslensk stílfræði, Reykjavík: Mál og menning, 1994, bls. 555.
20 Þórður Sigtryggsson, Mennt er máttur, bls. 14–16.
BRæðRABYLTA