Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 135
135
Hvenær verðum við til? Hvaða reynsla og atburðir móta persónu okkar?
Er það í núinu, á andartakinu þegar heimurinn snertir við okkur? Eða er
það þegar við segjum frá því sem fyrir okkur bar? Verðum við fyrst þá að
því sem við erum? Paul John Eakin, einn fremsti könnuður minnis og
mótunar persónuleika í sjálfsævisögum, er ekki í vafa um að við séum búin
til úr sögum eða, kannski frekar, að við búum okkur sjálf til úr sögum, og
byggir hér jafnt á kenningum heimspekingsins Pauls Ricoeur um tengsl
tíma, frásagnar og sjálfs, sem og kenningum taugasérfræðinga um tengsl
frásagnar og líkama.1 Í bók sinni frá árinu 2008, Living Autobiographically:
How We Create Identity in Narrative, er hann ekki síst upptekinn af þessu
fyrirbæri hvernig frásögn og sjálfsmynd eru í raun óaðskiljanleg. Hann
vitnar til Olivers Sacks, taugasérfræðings og höfundar bóka með skemmti-
legum titlum um ýmiss konar raskanir á heilastarfsemi, sem segir í bókinni
The Man Who Mistook His Wife for a Hat: „Það mætti segja að hvert okkar
búi til og lifi ‚frásögn‘ og að sú frásögn sé við, okkar sjálfsmynd.“2 Eða eins
og Eakin orðar það sjálfur: „Fyrir sjálfsmynd okkar þá er frásögnin ekki
bara um okkur sjálf heldur hluti af okkar sjálfi.“3 Sjálfsævisögur eru þar
1 Sjá til dæmis Paul Ricoeur, Soi-même comme une autre, París: éditions du Seuil,
1990 og Antonio Damasio, The Feeling of What Happens: Body and Emotion in the
Making of Consciousness, New York: Harcourt, 1999.
2 Oliver Sacks, The Man Who Mistook His Wife for a Hat. And other clinical tales, New
York: Touchstone, 1998, bls. 110, vitnað í hjá Paul John Eakin, Living Autobio-
graphically: How We Create Identity in Narrative, Ithaca, NY: Cornell University
Press, 2008, bls. 1.
3 John Paul Eakin, Living Autobiographically, bls. 2.
gunnþórunn guðmundsdóttir
„Minnið er alltaf að störfum“
Mótun endurminninga og sjálfs
í Minnisbók og Bernskubók Sigurðar Pálssonar
Ritið 2/2013, bls. 135–148