Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2013, Blaðsíða 175
175
ekki nægja til að draga að áhorfendur. Upphafsatriðið lýsir því að rithöf-
undur er ráðinn í vinnu við að skrifa sögur um þær sögulegu persónur sem
vaxmyndirnar líkja eftir, til þess að gæða þær „lífi“ og sveipa þær ákveðnu
dulúðugu aðdráttarafli, í von um að auka viðskiptin. Þannig færir upp-
hafsatriði myndarinnar, sem jafnframt setur fram grunnforsendur ramma-
frásagnarinnar, ákveðnar spurningar um varðveislu sögulegrar þekk-
ingar í forgrunn. Án sögusmíðarinnar sem slíkrar eru myndastytturnar,
hversu nákvæmar sem þær geta talist í krafti tækninnar, merkingarlausar,
eða stefna í það minnsta á að verða minnisleysi nútímamannsins að bráð.
Þannig er bent á ákveðnar takmarkanir safnsins, eða hugmyndarinnar um
„varðveislu“ sögunnar í formi „safngripa“ án tilraunar til endursköpunar
á tíma og rúmi sem mannsvitundin er fær um að gæða lífi og bæta þannig
í „minningasafn“ sitt. Þáttur mannsvitundarinnar við mótun frásagna og
allrar merkingarmiðlunar er hér að endingu færður í forgrunn.
Burch og Bazin fjölluðu báðir um kvikmyndina á forsendum tilvist-
arlegrar tengingar tækninnar við veruleikann, sambands sem hafið er yfir
venjubundin tengsl fyrirmyndar og eftirlíkingar. En þótt kvikmyndafræð-
ingarnir tveir leggi að sumu leyti ólíka merkingu í vísiseiginleika ímynd-
arinnar – marxískur bakgrunnur Burch skín í gegn og greining hans hefur
augljósa pólitíska slagsíðu meðan sjónarhorn Bazin er sammannlegt og
heimspekilegt, í nánum tengslum við fyrirbærafræðina – þá eiga „múmíu-
áráttan“ og „Frankenstein-hugmyndafræðin“ það sameiginlegt að draga
fram byltingarkennda vídd tækni sem gerði andartakið að viðfangsefni varð-
veislu og söfnunar og léði þannig hinni líðandi stund yfirbragð óforgengi-
leika. Þá er einnig ljóst að sú dulspekilega hugmyndafræði sem Burch og
Bazin vísa til var hluti af kvikmyndalegri umræðu löngu eftir að kvikmynd-
in sjálf hafði slitið barnsskónum, samanber umfjöllun Walter Benjamin
um eftirstöðvar dýrkunargildis og helgisiða í kvikmyndakenningum þriðja
áratugarins.55 Hneykslið sem býr í dauðanum er í öllum þessum tilvikum
aflvakinn, því líkt og Derrida bendir á gerir safnasóttin aðeins vart við
sig andspænis róttækum endimörkum og meðvitund um forgengileika.56
Kvikmyndin Vaxmyndasafnið er í þessu samhengi bæði skýrt og forvitnilegt
dæmi um það hvernig tekist var á við þessi hugðarefni á sjálfum vettvangi
kvikmyndamiðlilsins, en æ síðan hefur kvikmyndamiðillinn öðrum þræði
verið frjótt könnunarsvið fyrir spurningar um tíma, varðveislu og minni.
55 Walter Benjamin, „Listaverkið á tímum fjöldaframleiðslu sinnar“, bls. 560–561.
56 Jacques Derrida, Archive Fever, bls. 19.
SöGUR ÚR VAXMYNDASAFNINU