Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Page 46
45
þrautseigja verður í það hetjulegasta. Bókinni lýkur hins vegar þar sem
erfiðleikarnir í sambandi Hallgríms og Guðríðar byrja á Íslandi og trúlega
hyggst Steinunn skrifa framhald hennar og fylgja sinni konu til enda.
Í þessari grein hef ég sýnt hve flókin myndin af Tyrkjaráninu verður
í ljósi nýrra fræðikenninga og hve brothættar hugmyndalegar andstæð-
ur eins og húsbóndi og þjónn, nýlenduherra og nýlendubúi geta orðið.
Kenning Edwards Said um óríentalisma gerir ráð fyrir röklegum andstæð-
um en á þó rætur sínar í dulvituðum fantasíum. Homi Bhabha gagnrýnir
hann fyrir að taka ekki mið af hinum trámatíska ótta heimsvaldastefnunnar
um „endurkomu þeirra kúguðu“, ótta sem birtist í hræðilegum staðal-
manngerðum fólks sem er undir mannleikamörkum, er „hinir“, lýst sem
mannætum, dýrslegum, lostafullum og stjórnlausum. Það ógeðslega í fari
hinna sem Vesturlandabúar vilja forðast og firra sjálfa sig frá með ráðum og
dáð er andstæðan við freistingarnar sem fylgja þeim, hið lokkandi og fram-
andi sem þeir girnast. Bhabha segir að fyrirbærið „blæti“ sé vel fallið til að
lýsa grundvallargoðsögn óríentalismans, þ.e. yfirburðum hvíta kynþátt-
arins yfir öðrum kynþáttum.50 Blætið er trygging fyrir því að frummyndin
sé til en frummyndin er fantasía. Hér hefur því verið haldið fram að hlut-
skipti Guðríðar Símonardóttur hafi orðið að verða blæti af þessu tagi til að
menn gætu náð valdi yfir óttanum við hina lokkandi útlendinga með því að
breyta henni í óvininn – ef ekki efnislega, þá í sögum og fantasíum. Með
slíku blæti var hægt að segja sér og öðrum að Íslendingum væri best borgið
með algjörri einangrun eyjunnar í bráð og lengd.51
Ú T d R Á T T U R
Tyrkjaránið og Guðríður Símonardóttir sem blæti
Í Tyrkjaráninu 1627 voru meira en 350 Íslendingar brottnumdir og seldir sem þræl-
ar í Algeirsborg. Þessi atburður var hluti af umfangsmikilli hvítri þrælasölu sem
Ósmanska heimsveldið lét óáreitta en hann var ekki á vegum þess. Á Íslandi varð
Tyrkjaránið að sögulegu „tráma“ sem hafði víðtækar félagslegar afleiðingar. Reynslu
herleiddu Íslendinganna er að hluta lýst í hinni einstæðu Reisubók séra Ólafs Egils-
sonar frá Vestmannaeyjum og bréfum þriggja Íslendinga sem seldir höfðu verið sem
þrælar í Algeirsborg. Þessar heimildir eru til vitnis um blöndun ólíkra menningar-
heima, tvíræðni og eftirhermur í samskiptum hinna herleiddu og eigenda þeirra.
50 Homi Bhabha, „of mimicry and man“, bls. 71–72.
51 ég vona að ég hafi nú lagt mitt af mörkum til að bæta Guðríði Símonardóttur í hóp
þeirra máttugu meyja og óþörfu unnusta sem Helga Kress hefur leitt til öndvegis
í íslenskum bókmenntum og menningarsögu. Greinin er tileinkuð Helgu.
TyRKJARÁNið oG GUðRÍðUR SÍMoNARdÓTTiR SEM BLæTi