Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1998, Page 55
Prestaskólinn í Reykjavík og samhengið í íslenskri prestsmenntun
sem ríktu á þessu skeiði hefur verið merkingarlaust með öllu að tala um skóla
eða skólahald. Jafnvel á fyrri hluta aldarinnar sem leið hafði ekki tekist að koma
allri prestsmenntuninni fyrir undir hatti skólakerfisins. Af 270 prestum sem
vígðust á tímabilinu 1805-1846 höfðu 77 eða tæp 30% aðeins hlotið einka-
kennslu langoftast hjá sér eldri presti.
Um þetta leyti, þ.e. á árunum áður en Prestaskólinn í Reykjavík tók til starfa,
var embættisgengi í íslensku kirkjunni aðeins bundið við burtfarar- eða lokapróf
frá íslenskum latínuskóla eða jafngilda menntun sem fá mátti í einkakennslu.
Pretastéttin einkenndist því af mikilli breidd hvað menntun og menningu áhrærir.
Innan hennar vébanda voru menn er hlotið höfðu einkakennslu á heimaslóðum,
stúdentar frá latínuskólunum, menn er hafið höfðu háskólanám í Kaupmanna-
höfn en orðið frá að hverfa að loknu undirbúningsnámi og loks kandídatar frá
Hafnarháskóla með margra ára guðfræðinám að baki. A fyrri öldum var ástandið
svipað að öðru leyti en því að flóran var enn meiri þar sem Kaupmannahöfn hafði
ekki náð þeirri einokunaraðstöðu sem hún hlaut síðar
Annað hugtak sem vert er að hugleiða áður en lengra er haldið er sjálft lykil-
orð þessa lestrar, þ.e. prestsmenntun. Eins og orðið ber með sér er hér um að
ræða þann formlega undirbúning sem kirkja stöðu og starfshátta sinna vegna get-
ur krafist af og/eða veitt prestum sínum. Allt fram á okkar öld er hér um menntun
fyrir starf að ræða. Á okkar dögum ætti prestsmenntun hins vegar ekki síður að
vera menntun í starfi, þ.e. viðbótar- og símenntun. Á öllum tímum hefur prests-
menntun þó verið starfsmenntun sem mótast hefur af fjölmörgum þáttum sem
hafa aðeins að hluta til verið kirkjulegir eða guðfræðilegir. Á hinn bóginn hefur
prestsmenntun aðeins á tímabilum verið guðfræðimenntun. Kemur það best fram
í því að hér á landi var ekki tekið að krefjast formlegs náms í guðfræði af verð-
andi prestum fyrr en með stofnun Prestaskólans fyrir 150 árum nema við skil-
greinum orðið guðfræði þá mjög frjálslega.
Prestaskólinn og samhengið í íslenskri prestsmenntun
Eitt af því sem skýrir þá þögn sem umlukið hefur prestsmenntun á íslandi og
hefur án nokkurs efa mótað sögu hennar - þróun eða kyrrstöðu - er hversu lítil
umræða hefur farið fram um þá ólíku þætti (sjá töflu 1) sem móta menntunina.
Sé fullrar ábyrgðar gætt við skipulagningu prestsmenntunar hljóta menn aftur á
móti að leitast við að greina þá krafta sem á menntunina verka á hverjum tíma,
meta vægi þeirra innbyrðis, taka afstöðu til þess hvort það vægi sé heppilegt eða
óheppilegt og breyta því síðan „með handafli“ ef slíkra aðgerða er talin þörf, þ.e.
stunda stefnumörkun með markvissum hætti út frá skilgreindum markmiðum.
Það er einmitt þarna sem stofnun Prestaskólans kemur inn í myndina með
53