Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1998, Síða 191
Hirðir og hjörð
konar þema: Ytri og innri ánauð. Sú ytri er ánauð hernuminnar þjóðar (exódusmótífið), sú innri
er sjálfsköpuð ánauð nútímamannsins innan hjarðar þar sem hver og einn er sinn eigin hirðir
og hjálpræðið virðist fólgið í því að fyrra sig óþægindum. í fyrra tilvikinu er um hliðstæðu að
ræða. Tékkar voru undir yfirráðum Rússa í rúm 40 ár. í st'ðara tilvikinu varpa þeir Sverak-feðg-
ar fram þeirri spumingu hvort sé í raun vænlegra til mannlegrar farsældar, öryggisfíkn og
hjarðmennska nútímamannsins þar sem hver og einn er þó sjálfum sér næstur þegar á reynir,
eða trúin á forsjón síns hirðis, sem virðist hvort eð er grípa inn í líf manna og kollvarpa öllum
þeirra áformum, sama hversu vel þeir hafa sjálfir reynt að tryggja hag sinn. Þar eru persónumar
í myndinni fulltrúar hins almenna, en ekki bara fulltrúar vissrar þjóðar í vissum kringum-
stæðum.4"
í ljósi þess sem rætt var hér að framan um tengsl exodus-stefsins og S1 23 er
athyglisvert að í kvikmyndinni Kolja megi greina bæði hirðis- og exodus-stefin
og þau fléttuð saman, eins og Jóhanna Þráinsdóttir sýnir svo ágætlega fram á í
grein sinni. Kvikmyndin Kolja var mikið til umræðu í námskeiðinu um áhrifa-
sögu Saltarans í guðfræðideild Háskóla Islands á vormisseri 1998 og veltum við
þar meðal annars fyrir okkur þeirri spumingu hvort við sem legðum stund á guð-
fræði værum e.t.v. bara að „lesa eitthvað inn í“ myndina þegar við töldum okkur
koma auga á ýmis hinna stóra og mikilvægu stefja guðfræðinnar í myndinni.
Þessi spurning varð ekki síst áleitin fyrir þá sök að hvergi höfðum við upp á um-
fjöllun um myndina þar sem bent var á þau atriði sem við töldum okkur sjá.41
Því var það sérlega gleðilegt þegar við loks höfðum upp á viðtali við feðgana
Zdenek og Jan Sverak, sem eiga mestan heiðurinn af myndinni. Faðirinn samdi
handritið og fer með aðalhlutverkið í myndinni en sonur hans leikstýrir henni. í
viðtalinu eru þeir spurðir hvort þeir taki á einhvern hátt trúarlega afstöðu til við-
fangsefnisins. Jan Sverak svarar spurningunni á þann veg að hvorugur þeirra sé
trúrækinn en sjálfur kveðst hann þó óttast Guð. Hann bætir við að í myndinni sé
maður sem vinnur í kirkjugarði, í návist dauðans, á mörkum þess að vera eða
vera ekki, og hann vinni nálægt líkbrennslu. „Við erum að fjalla um trú og hvers
vegna við erum hér og hvert sé hlutverk okkar í lífinu. Auk alls þess er hér hug-
myndin um að einhver eða eitthvað vaki yfir okkur,“ segir Jan Sverak.
Þó svo að S1 23 beri ekki beinlínis á góma í þessu viðtali og ekki sé frekar
spurt út í hina trúarlegu drætti myndarinnar fer vart á milli mála af þessum orð-
40 Úr væntanlegri grein Jóhönnu Þráinsdóttur í Orðinu. Riti Félags guðfrœðinema, 1998.
41 Hér á landi hefur dr. Gunnar Kristjánsson hins vegar minnst á hina trúarlegu drætti myndar-
innar í grein sinni „Hinn veiklegi siður. Trú, list og kirkja“ í: „Kristnitaka “ í Skálliolti. Sýning
17 listamanna í umhverfi Skálholtskirkju 14. júní - 14. október 1997. Skálholtsskóli 1997, s.
15. Þar kemst Gunnar þannig að orði: „Það er áreiðanlega engin tilviljun að þessi sálmur er
látinn setja svo sterkan svip á myndina. Hér er táknmynd og samlíking fyrir umhyggju Guðs
sem fær hér afar frumlega og áhrifamikla túlkun. Líkt og tónlistarmaðurinn leiðir litla drenginn
í þessari hættulegu borg, þannig leiðir Guð þá sem honum treysta í þessum flókna og stundum
hættulega heimi.“
189