Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1967, Blaðsíða 120
118
MÚLAÞING
litum er meiri í fjöllum Borgarfjarðar en annars staðar hér á landi
á ekki stærra svæði.
Það var um sólstöður sumarið 1908, að ég leit Borgarfjörð í
fyrsta skipti. Ég hafði verið fenginn af samtökum bindindismanna
til þess að fara um nokkurn hluta Austurlands. Ég lagði af stað til
Borgarfjarðar fyrri hluta dags heiman frá mér frá Utnyrðingsstöð-
um í Vallahreppi. I fylgd með mér var föðurbróðir minn, bóndi
vestan frá Ameríku, og ung frændkona okkar. Vorum við öll ríð-
andi og nálægt miðnætti lögðum við upp frá Krosshöfða við Hér-
aðsflóa og yfir Gönguskarð og ofan í Njarðvík. Yfir Njarðvíkina
fórum við sem leið lá og út að hinum illræmdu Njarðvíkurskriðum.
Þar stigum við af hestunum. Fetuðum við okkur áfram eftir götu-
troðningi og teymdum hestana, því að enn var ekki búið að moka
götu í skriðurnar, sem venjulega var þó gert á hverju sumri. Við
fórum fram hjá krossinum fræga við Naddagil. En á honum stóð
meðal annars ártalið 1306. Samkvæmt þjóðsögum hafði óvættur-
inn Naddi hafzt við í Naddagili og orðið mörgum ferðamanni að
fjörtjóni, þar til krossinn var reistur þar. En þótt við vissum, að
við þyrftum ekki að óttast árásir Nadda, vorum við samt fegin, er
við vorum komin klakklaust yfir skriðurnar eftir nær hálftíma
göngu. Stigum við nú aftur á hestana og brátt blasti við augum
okkar öll byggð Borgarfjarðar og fjallahringurinn kringum hana,
allt baðað í skini morgunsólarinnar. Borgarfjarðarsveitin skartaði
með miklurn gróðri, í sínum fjölbreytilega, Jitauðga og svipmikla
fjallahring. Við fórum fram hjá bænum Snotrunesi, þar sem sagt
er að álfadrottning frá undirheimum hafi eitt sinn búið, og bærinn
er síðan kenndur við. Og þar hafði fyrir nær heilli öld búið annar
hinna nafnkunnu Hafnarbræðra, Hjörleifur sterki, en beint á móti
Snotrunesi, hinum megin fjarðarins, blasti við bærinn Höfn með
hinum fengsæla æðarvarpshólma, sem kenndur er við Höfn, rétt
við land. Og innan við hann er þrautalending Borgfirðinga. í Höfn
hafði búið annar þeirra Hafnarbræðra, Jón hinn sterki. Voru þeir
bræður á sinni tíð taldir sterkustu menn á íslandi. Eiga þeir marga
afkomendur og suma nafnkunna, svo sem Jörund Brynjólfsson,
fyrrv. aiþingisforseta, sem kominn er í beinan karllegg frá Hjör-
leifi, og Halldór Ásgrímsson alþm., sem kominn er af Jóni sterka.