Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1967, Page 139
MULAÞING
137
„Nú es Steinólfr
í styrstraumi
á stagli píndr
með Agli.
Ves þú vinr
vinar míns,
en ek mun með svinnum
at saka bótum.“
(Sturl. II. bls. 489).
Það er einkennilegt, að Sturla Þórðarson skrásetur þessa drauma
Jórunnar í sambandi við atburði þá, sem gerðust 1255. Það liggur
nærri að ætla, að hér sé ekki um drauma að ræða, heldur sé hér í
raun og veru frásögn um það, sem hefur gerzt. Það er líkara uin
þetta stef um Steinólf, að annaðhvort hafi hann særzt illa í bardag-
anum í Geldingahoiti eða verið í haldi hjá þeim Eyjólfi Þorsteins-
syni og Hrafni Oddssyni. Steinólfs getur ekki í leiðangrinum með
Þorvarði, þegar hann hefndi Odds, og má það furðu gegna, ef hann
hefur ekki verið á einhvern hátt forfallaður. En að Steinólfur hefur
ekki fallið í Geldingaholti, sést bezt á því, að hans getur í Jarteikna-
bók Guðmundar biskups Arasonar á þessa leið: „Fyrir mörgum
vetrum fór Steinólfr, bróðir lierra Þorvarðar, með bukkskinn á hesti,
ok kom hornit í auga hestsins, svá at úti var augasteinninn ok tómt
eftir, en augat lá í leiri niðri, svá at menn sá þat. Síðan hét Stein-
ólfr á inn góða Guðmund biskup fyrir hrossinu ok bar í brunnvatn
hans á Landi í Oxarfirði, ok at tveim dögum liðnum var hrossit
heilt og skyggnt. Þessa jarteign sór Jón Steinólfsson á sögðu ári á
honum sjálfum." (Biskupas. II. bls. 515). Og í framhaldi af þess-
ari klausu segir Jón svo frá lækningu á sjálfum sér fyrir atbeina
hins góða Guðmundar.
Þessi frásögn sýnir, að Steinólfur hefur átt son, sem Jón hét, og
að Steinólfur var á ferð í Axarfirði og gistir a, 1. þar á bæ, sem
Land hét, og fær þar vígt vatn úr einhverjum Gvendarbrunni og
bætir með því áverkann, sem hross hans hafði orðið fyrir. Hann
hafði heitið á Guðmund góða. Um sannleiksgildi kraftaverksins
skal ekki rætt hér, en Jón Steinólfsson sér, að það hefur gerzt. Af