Orð og tunga - 01.06.2010, Side 71
Svavar Sigmundsson: Um örnefnaskýringar
61
um málum. Við skýringu þarf að gera ráð fyrir að nafn geti haft aðra
merkingu en orðabókarmerkingu á þeim tíma sem nafnið var gefið,
þ.e. fyrir einhverja málnotendur á ákveðnu tímabili á ákveðnum stað.
Sem dæmi um það má nefna bæjanöfnin Saura og Saurbæ, þar sem
saur merkir 'mýri,votlendi'.
Ýmsir leggja áherslu á að það sé einkenni nafnfræðinnar og það
sem geri hana að sérstakri grein sé þetta viðfangsefni hennar að greina
nafnmyndunaratvikið. Það þarf ekki aðeins að skýra nafnið málfræði-
lega heldur líka að skilja það í myndunarsamhengi sínu. Sænskur
nafnfræðingur, Stefan Brink, hefur lagt áherslu á þessa tvo þætti nafn-
fræðinnar: orðmerkingargreininguna og nafnmerkingargreininguna.
Skoðun hans er sú að nafnfræðin sé málfræðileg í þeim skilningi að
hún fjalli um mállegar heimildir og noti málfræðilegar heimildir. En
efniviðurinn er menningarsögulegur og markmiðið með rannsóknun-
um er menningarsögulegt og samfélagssögulegt. Nöfnin eru meðal
þeirra heimilda sem varpað geta ljósi á manninn og athafnir hans.
Rannsókn á smáatriðum á að leiða til heildarsýnar og nafnfræðing-
ur á að þora að koma fram og leggja fram syntesu, segir Stefan Brink
(1992-93:27).
Þetta gerði Þórhallur Vilmundarson þegar hann kom fram á 7. ára-
tugnum með náttúrunafnakenningu sína, m.a. um -staða-nöfnin, um
að staðhættir ættu mun meiri hlut í forlið þeirra en mannanöfn væri
þar helst ekki að finna (1999:136 o.áfr.). Þá hafði endurskoðun á forlið
staða-nafnanna verið í gangi á Norðurlöndum um árabil. Menn höfðu
oftúlkað mannanöfn í þessum flokki nafna, svo að vissrar endurskoð-
unar var þörf. En annað mál er það að skýringagleðin í anda kenn-
ingarinnar gekk of langt. Upphaflega var um að ræða leiðsögutilgátu
en hugmyndin varð fljótlega að grunnmúraðri kenningu. Hún gerði
ákveðið gagn og vakti athygli á örnefnum og mikil heimildavinna var
unnin sem birtist í Grímni á árunum 1980 o. áfr. Það sem er varasamt
við allar örnefnaskýringar er að örnefnin gefa svo litlar upplýsingar
að þau gefa færi á miklu hugarflugi.
Alltaf hafa verið til svonefndar alþýðuskýringar á örnefnum en
slíkar skýringar eru nú nefndar merkingartúlkun. Málnotendur leitast
þá við að tengja framandleg orð í örnefnum við kunnuglega orðliði
sem þeir þekkja í málinu. Við það skapast fölsk merkingartengsl.
Eitt af því sem menn grípa til þegar skýringar á örnefnum þrýtur,
er keltnesk mál, og þá írska nærtækust. Það eru einkanlega áhuga-