Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Síða 104
104 TMM 2008 · 4
B ó k m e n n t i r
hugkvæmst að hér sé ýjað að framhaldslífi. En þessi velþekktu kennsl sem oft
eru tengd við þröskuldinn milli lífs og dauða, og hugsanlega er átt við hér, er
einnig hægt að skýra sem ummerki um björgunaraðgerðir lögreglu og sjúkra-
fólks, ljóskastarar eða logsuðutæki þeirra sem eru að reyna að losa Önnu úr
flakinu kunna að blandast hugrenningum hennar síðustu andartökin. Það
myndi útskýra eftirfarandi mynd: „hún lýsti stórkostlegum litbrigðum jarðar,
hvernig stirndi á mosann og sólin gyllti mosann úti í miðju svörtu hrauninu“
(69). Þannig verða þematískar og myndrænar hliðstæður sem frásögnin býður
upp á milli einstakra efnisþátta og trúarlegra stefja skapandi og frjóar, sjón-
arhorn verksins leyfir samlíf trúar og veruleika og notar togstreituna þar á
milli sem spennuafl.
Þegar flugvélin tekst á loft daginn eftir „síðasta kvöldverðinn“ hefur sögu-
maður á orði að hann sé að segja „skilið við hið jarðneska“ (23). Í kjölfarið
fylgir játning: „Ég er tuttugu og tveggja ára karlmaður og hlýt nokkrum sinn-
um á dag að sökkva mér niður í hugleiðingar um dauðann“ (23-4). En það eru
ekki bara hugleiðingar um dauðann sem gera vart við sig heldur feigðarboðar
af ýmsu tagi. Þegar Arnljótur gekk frá afleggjurunum til ferðarinnar vafði
hann þeim inn í dagblaðasíður, nú kemur í ljós að á síðunum eru minningar-
greinar. Á leiðinni út á flugvöll aka feðgarnir fram hjá slysstað móðurinnar.
Nokkru síðar, þegar sögumaður er á leið suður á bóginn, ekur hann fram hjá
hryllilegu banaslysi. Meðan hann jafnar sig eftir uppskurðinn í erlendri borg
gistir hann í íbúð skólasystur sinnar sem er fjarverandi við rannsóknir á leg-
steinum og kirkjugörðum. Fiðrildi koma fyrir sem tákn fyrir framhaldslífið
(eins og hjá Nabokov). Ferðalag sögumanns virðist því ekki endilega snúast um
að komast frá einum stað til annars heldur hefur það tilvistarlegan undirtón,
það gæti jafnvel verið einhvers konar táknræn pílagrímsferð. En dauðinn er
hluti af hringrás lífsins og andspænis minnismerkjum um forgengileika er
einnig lögð áhersla á framtíðina. Flóra Sól, dóttir sögumanns, vakir yfir sög-
unni á fleiri vegu en einn eins og sést snemma í ferðalaginu þegar furðulegt ský
birtist á himni, „í laginu eins og barnshúfa með blúnduskyggni“ (51). Síðar
klæðir sögumaður Flóru einmitt í bláa blúnduhúfu (195). Í Flóru Sól búa öfl lífs
og ljóss, eins og nafnið gefur til kynna, og þegar hún færist nær miðju sögunn-
ar er sem feigðin hopi undan.
Andblær sögunnar er hæglátur og yfirvegaður en líka draumkenndur og
margræður, eins og sögumaður sjálfur. Þannig birtist eitt helsta frásagnarein-
kenni verksins í markvissri ónákvæmni þegar að rýmissköpun kemur og
ýmsum öðrum hefðbundnum kennileitum raunsæisskáldsögunnar. Ferðalag-
ið er skýrt dæmi um þetta. Erfitt er að tengja leið sögumanns og endastöð hans
við staðarheiti sem lesandi kannast við á korti (reyndar er á einum stað bent á
að þorpskrílið sem sögumaður stefnir að sé eiginlega ekki til á neinu korti), því
þjóðir, borgir og staðir eru ekki nafngreind. Vísbendingar eru vissulega gefnar
en umhverfislýsingar eru yfirleitt almennar. Lesandi veit hvenær sögumaður
getur bjargað sér á máli heimamanna og hvenær ekki, en lesandi veit ekki
hvaða tungumál er um að ræða. Leið Lobba liggur um marga afleggjara og yfir