Skírnir - 01.04.2017, Page 62
leifarannsóknir sem staðfesti hina hefðbundnu mynd af fyrstu
tveimur öldum íslams. Þegar áðurnefndar heimildir séu rannsakaðar
komi fyrst og fremst fram afmarkaðar deilur arabískra ætta við ríkj-
andi yfirvöld sem oft lutu keisaranum í Býsans eða Persum. Upp-
runa þessara deilna sé ekki að finna á Arabíuskaganum, heldur á því
landsvæði sem í dag kallast Jórdanía og Írak. Þessar hugmyndir hafa
kallað fram viðbrögð og gagnrýni og hefur mörgum þótt þær ganga
of langt (Nagel 2008: 838–839, Neuwirth 2010: 91–96, 337–339).16
Frekari rannsóknir Crone og Cooks á stöðu borgarinnar Mekka
á 6. og 7. öld sýna að hún hafi ekki verið sú verslunar mið stöð og
hvað þá svo miðlæg sem haldið er fram í íslömskum heimildum.
Hvorki Mekka né Kaaba sé einu sinni sérstaklega getið í Kóran-
inum. Þar að auki sé í honum fjallað um atburði sem hvergi annars
staðar er getið, eins og t.d. átökin við Badr 624 gegn herjum Mekka
og Qurays (Crone og Cook 1977: 21–24). Að þar sé um sögulega
staðreynd að ræða hvíli því alfarið á Kóraninum einum. Auk þess
hafi rannsóknir á myntum frá 5. til 10. aldar á þessu svæði sýnt að
það er fyrst á 10. öld sem fram komi íslömsk tákn á þeim sem vísi
til þeirra sem sjálfstæðra trúarbragða. Vissulega er í heimildum
minnst á Araba sem kalla sig „hagarana“ og „íslamíta“ en það nafn
bendi frekar til tengsla við ættföður þeirra innan gyðing-kristinnar
hefðar (Crone og Cook 1977: 3–10). Um sé að ræða Abraham, amb -
átt hans Hagar og son þeirra Ismael en til hans röktu Arabar ættir
sínar. Aftur á móti er ekkert rætt um „spámanninn Múhameð“ og
nafnið „Múhameð“ er ekki notað sem sérnafn heldur aðeins sem
titill (Cook 1983: 82).
Þau Crone og Cook renna enn frekari stoðum undir kenningu
Wansbrough um að íslamskar heimildir um uppruna íslams og út-
breiðslu dragi upp mynd af „ímynduðu samfélagi“ sem þjóni hags-
munum trúarsamfélags frá því seint á 8. öld og fram á þá tíundu,
62 sigurjón árni eyjólfsson skírnir
16 Þessari tilgátu þeirra Crones og Cookes hefur verið svarað með því að benda á
að þau virði ekki sem skyldi málfræðilegar rannsóknaraðferðir, eins og Nagel
hefur bent á. Þetta eru greinilega umdeildar kenningar, t.a.m. hefur kennari
þeirra, áðurnefndur Wansbrough, tekið þeim með fyrirvara, en fræðimönnum
þykja þær engu að síður vera svaraverðar. Umræðan endurspeglar þannig grund-
vallarátök innan fræðasamfélagsins.
Skírnir vor 2017.qxp_Layout 1 31.3.2017 13:23 Page 62