Skírnir - 01.04.2017, Page 71
71sögurýnin og íslam
Jesú Krists, heldur beinast sjónir manna að starfi heilags anda sem
myndar einingu Guðs og Jesú. Einingin er sett fram með þeim hætti
að Jesús, sem sonur Guðs, sé „þjónn Guðs“ og þjónn allra. Þótt hér
sé um einstakt samband að ræða eru í hjálpræðissögunni einnig
aðrir þjónar Guðs, eins og Móse, Davíð, spámennirnir og jafnvel
sjálf Ísraelsþjóðin (Goetze 2013: 88–90, 113–118).22 Að mati
Goetze er Jesús settur í þetta samhengi í samræmi við arameíska
trúarhugsun. Því til grundvallar liggur hugmynd sýrlenskrar kristni
um þjóna Guðs innan hjálpræðissögunnar sem síðar er vísað til í
Kóraninum. Þunginn er á nálægð Guðs í anda sínum sem birtist á
einstakan hátt í Jesú Kristi (Goetze 2013: 42, 135–136, 203–204,
297–298, 338).
Innan sýrlenskrar kristni var vonin lifandi um endurkomu
Krists.23 En þar sem henni seinkaði verulega dró úr mikilvægi þess
að tengja hana við Krist og var hún nú frekar bundin við komu
guðsríkisins. Goetze telur að það hafi því þjónað valdakröfum
Abbasída betur að yfirfæra hlutverk Jesú Krists á spámanninn
Múhameð, sem í raun hafi verið ímynduð persóna. Titillinn „hinn
lofaði“, sem er merking nafnsins Múhameð, var einmitt einn af þeim
kristfræðilegu titlum sem sýrlensk kristni hafði bundið við Jesú.
Goetze styður þá tilgátu að það sé fyrst í valdatíð Abbasída sem
skírnir
22 Í samhengi þessa telur Goetze nauðsynlegt að lesa þær fornu heimildir, sem
menn hafa álitið til þessa að vísi til Múhameðs og íslams. Dæmi um það eru skrif
Jóhannesar frá Damaskus (650–750). Hann var ekki einungis einn af merkari
trúfræðingum 8. aldar, heldur er einn sá fyrsti sem skrifaði um íslam. Hann fjallar
aftur á móti ekki um íslam sem sjálfstæð trúarbrögð heldur sem kristinn sér-
trúarsöfnuð. Um Múhameð ræðir hann sem leiðtoga þess safnaðar og gagnrýnir
hann sem slíkan og virðist þekkja til einhverra súra úr Kóraninum en einnig til
óþekktra. Að mati Jóhannesar er hann mótaður af hugmyndum Aríusar, þ.e.a.s.
kenningum sem er hafnað í Níkeujátningunni. Þekking Jóhannesar á Múhameð
og trúarsamfélagi hans er mjög takmörkuð, en hann tengir Múhameð þó við bók
sem minni á handbók með upplestrarefni. Að mati Goetze er greinilegt að Jó-
hannes áttaði sig ekki á að Múhameð er titill sem sýrlenska kirkjan tengdi við Jesú
en ekki sérnafn. Jóhannes endurtaki í raun gagnrýni býsanskra guðfræðinga á
guðfræðiáherslur sýrlensku kirkjunnar. Þessi umfjöllun Jóhannesar tengdist síðar
túlkunum á íslam sem litaðar voru af átökum milli þess og kristni á 9. og 10. öld
(Goetze 2013: 310–311).
23 Um stöðu vonarinnar um endurkomu Krists í sögu kristinnar trúar, sjá Sigurjón
Árni Eyjólfsson 2014: 190–201.
Skírnir vor 2017.qxp_Layout 1 31.3.2017 13:23 Page 71