Skírnir - 01.04.2017, Page 132
sónunum í forgrunni sem eiga sviðið mest megnis, heldur hefur
Natra leitað á huga hans og hann lagt sig fram um að kanna and-
mannveru ef svo má segja; konu sem oft er gerð að kómískri persónu
en býr þó yfir tregafyllri þáttum þegar hún er skoðuð nánar. Hróp-
andi er andstæða hennar við Dr. Godman Sýngmann sem virðist
hafa sigrað heiminn, átt mörg líf, margar konur, reynir að tylla sér
á bekk meðal guðanna til að ráðskast með líf og dauða og talar eins
og klassískur brjálaður vísindamaður þegar hann vill gera alla menn
ódauðlega: „Við látum ekki staðar numið fyren tekist hefur með
tilbeina stillilögmálsins að magna hér líf sem getur ekki dáið …“
(Halldór Laxness 1998: 162).
Bent hefur verið á samsvörun á milli beitarhúsmanna Kristni-
haldsins og sígaunanna í Drakúla sem eiga sameiginlegt að flytja
milli staða dularfullar hirslur látinna eða hálf-látinna einstaklinga.
Hliðstæða er jafnframt milli beitarhúsmannanna og tataranna í
Makt myrkranna af sömu sökum, en athyglisvert er að apamennirnir
í þýðingu/skáldverki Valdimars Ásmundssonar virðast sömuleiðis
smeygja sér inn í beitarhúsmennina: „Vér erum elskufullir blóm-
gæfir apar, segir skeggur sá sem hefur orð fyrir þeim …“ (Halldór
Laxness 1998: 132).
Vafi leikur á hversu elskufullir þessir blómagæfu menn eru því
þeir leika sér að því að drepa sjófugla og telja morð æðstu skemmt -
un mannanna, framin í nafni ástarinnar.31 Einnig er gælt við þá hug-
mynd að beitarhúsarmenn séu uppvakningar af sama tagi og Úa
reynist um síðir líkast til vera, því eins og einn þeirra segir þá hefur
Lord Maitreya, sem er eitt af mörgum nöfnum Dr. Godmans
Sýngmann: „ … kveikt okkur í mansmynd, með kosmóbíólógískri
íleiðslu …“ (Halldór Laxness 1998: 134).
Þannig má sjá beitarhúsamennina sem ára Dr. Godmans, en
bæði hann og Drakúla greifi í Makt myrkranna eru gerðir að
fulltrúum óheftrar illsku í bókunum. Þetta blasir við um Drakúla
greifa í Makt myrkranna, en er ekki jafn greinilegt í Kristnihaldinu.
132 bjarni bjarnason skírnir
31 „Af hverju ferðumst við bandaríkamenn yfir hálfan hnöttinn með flóknustu
byssur veraldarsögunnar að skjóta nakta kotbændur […] af því við elskum þessa
menn …“ (Halldór Laxness 1998: 137).
Skírnir vor 2017.qxp_Layout 1 31.3.2017 13:24 Page 132