Skírnir - 01.04.2017, Page 147
147við og hinir
Fram til áhrifa
Með hverri bylgjunni sem hér er lýst hefur staða og styrkur hreyf-
inga þjóðernispopúlista í Evrópu aukist, svo nú teljast þeir til meg-
inafla í álfunni og ekkert fararsnið virðist á slíkum hreyfingum.
Sömuleiðis hefur andstaðan við slíka pólitík, sem byggist á þjóðern-
isáherslu og aðskilnaði menningarheilda, dvínað eftir því sem frá
leið styrjöldunum miklu. Eiginleg þáttaskil urðu í kosningum til
Evrópuþingsins 2014 þegar þjóðernisflokkar Frakklands, Dan-
merkur og Bretlands hlutu flest atkvæði í löndum sínum. Árangr-
inum var víða fylgt eftir næstu árin, til að mynda í Danmörku þar
sem Danski þjóðarflokkurinn hlaut yfir fimmtung atkvæða í þing-
kosningum 2015, í Frakklandi þar sem Þjóðfylkingin tryggði sér
næstum 28% atkvæða í sveitarstjórnarkosningum og í Póllandi þar
sem flokkur Jaroslaws Kaczynski, Lög og réttlæti, vann nálega 38%
atkvæða. Stóra stökkið varð svo í Bandaríkjunum með forsetakjöri
Donalds Trump í nóvember 2016.
Í Ungverjalandi hefur Viktor Orbán um alllangt skeið fært
landið af braut þess frjálslynda lýðræðis sem þarlendir færðust til
eftir fall kommúnismans og yfir til öllu harðari fáræðisstjórnar þar
sem verulega hefur verið þrengt að lýðræðinu og sjálfu réttarrík-
inu. Með umdeildum breytingum á stjórnarskránni tókst Orbán að
fá svo gott sem alla þræði ríkisvaldsins til að renna um eigin hendur.
Á sama tíma tíma þramma svo enn fasískari öfl Jobbik-hreyfingar-
innar um götur Búdapest og annarra byggðarlaga þessa fornfræga
lands í einkennisklæðnaði sem umbúðalaust vísar til fasisma Ítalíu
og Þýskalands á þriðja og fjórða áratug liðinnar aldar.
Sömuleiðis hefur Rússland, allt frá því Vladímír Pútín tók við
stjórnartaumum um aldamótin, jafnvel verið á enn greiðari braut í
átt til harðræðis, og nú síðast hefur Pólland líka færst í sömu átt.
Jaroslaw Kaczyński og félagar tóku meðal annars til við að lama
stjórnlagadómstól landsins og herða tökin á fjölmiðlum, svo mjög
að alþjóðastofnanir telja nú margar stefna í öngstræti. Um háls
hinnar gömlu frjálslyndu Evrópu hefur því á umliðnum árum raðast
krans allra handa harðræðisafla svo verulega hefur þrengst um
frjálsan andardrátt álfunnar
skírnir
Skírnir vor 2017.qxp_Layout 1 31.3.2017 13:24 Page 147