Skírnir - 01.04.2017, Page 168
orðs, þ.e. hvernig gosefni hlaðast upp og lífverur nema land, allt frá
kísilþörungum og fjörukáli til fugla og skordýra. Einungis örfá
tækifæri höfðu áður gefist til slíkra rannsókna í heiminum.
Aðeins tveimur dögum eftir að gos hófst fara ýmsar vangaveltur
um nöfn á eyjuna að birtast í dagblöðum. Í grein um gosið í Tím-
anum er því fleygt að henni hafi þegar verið gefin mörg nöfn þótt
óvíst sé hvort nokkurt þeirra nái að festast. Sumir vilja þar að eyjan
heiti Hverfey eða Séstey, með vísan til þess að hún verði sennilega
ekki langlíf, en ekki varð ljóst fyrr en nokkru síðar að hún yrði var-
an legt kennileiti. Í greininni er vísað í þekkingu sjómanna af svæð -
inu sem töldu sig þekkja botninn mætavel eftir að hafa stundað þar
togveiðar. Hann hafði áður verið rennisléttur og hentað vel til slíkra
veiða en undanfarið höfðu veiðar þar brugðist, hugsanlega vegna
eldvirkni eða gasmyndunar. Margir vildu nefna eyna eftir Ólafi
kokki Vestmann, og kalla hana Vestmannsey („Eyjan oftast ósýni-
leg“ 1963: 15).
Þann 16. nóvember skýtur nafnið Gosey upp kollinum í Vísi, en
það hafði reyndar einnig birst þar daginn áður án þess að ljóst sé
hvort þar var komin raunveruleg tillaga að nafni eða bara leið til að
vísa til fyrirbærisins („Eyja rís úr hafinu“ 1963: 1). Goseyjarnafnið
átti eftir að sjást nokkuð oft á prenti síðan, einkum í Vísi.
Sama dag birtist grein í Alþýðublaðinu undir yfirskriftinni „Hvað
á eyjan að heita? Hver ákveður nafnið?“ Þar er rætt við Kristján Eld-
járn sem þá var þjóðminjavörður en einnig formaður örnefnanefndar
og því valdamikill í menningarmálum þjóðarinnar. Nefndin hafði
raunar ekki það lögformlega hlutverk að velja nafn á eyjuna heldur átti
hún lögum samkvæmt að fjalla annars vegar um nafngiftir nýbýla og
hins vegar að skera úr um ágreiningsefni sem vörðuðu götunöfn og
úrskurða um hvaða nöfn birtust á kortum, útgefnum af Landmæl-
ingum ríkisins ef deilur kynnu að rísa (Lög um bæjanöfn nr. 35/1953).
Blaðamaður reyndi að fiska upp úr Kristjáni hvaða eyjanöfn kæmu
til greina. Hann nefndi möguleika á að kenna eyna við bátinn Ísleif,
sem næstur var þegar gosið hófst, og kalla hana Ísleifsey. Nöfnin
Gosey, Nýey og Ólafsey, sem Kristjáni höfðu borist til eyrna þóttu
honum ekki frumleg og benti hann á að Ólafseyjar væru þegar til á
Breiðafirði („Hvað á eyjan að heita?“ 1963: 16).
168 birna lárusdóttir skírnir
Skírnir vor 2017.qxp_Layout 1 31.3.2017 13:24 Page 168